Uppgjör skynsemisvikunnar

Skynsemisvikan gekk ekkert svo vel – og þó… hún hristi aðeins upp í mér. Förum yfir þá punkta sem ég ætlaði að hafa að leiðarljósi alla vikuna.

Elín Kára

Ég ætla að fara snemma að sofa og vakna snemma. – Já, ég fór alltaf mjög snemma að sofa. Hins vegar þá vaknaði ég bara á þeim tíma sem klukkan hringdi eða barn vakti mig. Ég vaknaði ekki extra snemma þessa vikuna. Vegna svefnleysis út af börnunum (hver elskar ekki að eiga börn á 1-3 ára aldri??) þá fór sá draumur út um þúfur á fyrsta sólarhring.

Ég ætla að hreyfa mig 30 mín á dag. – Já, þetta tókst 3 daga vikunnar. Ég er sátt með það. Ég er þó hugsi yfir því að fyrir nokkrum árum þá hreyfði ég mig á hverjum einasta degi í 30+ mínútur. Þetta var partur af deginum eins og að tannbursta sig. Hvernig getur svona venja horfið úr lífi mannns og týnst í amstri rútínunnar?

Ég ætla að borða skynsamlega og velja einungis mat ofan í mig sem veitir mér ánægju og vellíðan. – Já, einmitt. Þetta gekk ágætlega. Hrós vikunnar fær samstarfskona mín sem sagði „Nei, Elín! Ég ætla ekki að kaupa snúð fyrir þig í bakaríinu, þú ert í skynsemisviku!“. Ég borðaði 4x í vikunni fisk með kartöflum og grænmeti – það var æði! Ég hélt skömmtum í eðlilegum stærðum og ég vigtaði oft matinn, þegar mér fannst ég vera farin að skammta mér of mikið.

Ég ætla að framkvæma hlutina strax og láta ekkert dragast sem þarf ekki að dragast lengur en það þarf. – Já. Þetta gekk vel, eiginlega alveg mjög vel. Ég var svo dugleg að skrifa allt niður sem ég ætlaði að gera og tékka listann af. Bæði í vinnu og heima – þetta var klárlega markmið sem komst inn í undirmeðvitundina.

Ég ætla að skrolla minna um á samfélagsmiðlum. – Já, merkilegt hvað þetta gekk vel. Ég var mjög lítið í símanum í óþarfa skrolli um samfélagsmiðla. Mögulega líka vegna þess að ég hafði mikið að gera vegna vinnu og svo hef ég hvorki orku né tíma til að skrolla um eftir að krakkarnir eru sofnaðir á kvöldin. Ég reyni að hafa síman ekki uppi við milli 16-20 þegar krakkarnir eru heima með okkur foreldrunum. Þetta var gott markmið og virkaði vel!

Ég ætla að læra í +30 mín 5 daga vikunnar. – Já, þetta tókst 2 af 5 dögum. En ég lærði í langan tíma, þegar ég settist niður. Ps. get ekki beðið eftir að klára skólan!

Ég ætla að vinna vel á vinnutíma og eiga frí eftir vinnu með börnunum mínum og maka. – Já, þetta gekk mjög vel. Ég vinn vel á vinnutíma og ég náði að eiga góðan tíma með bæði maka og börnum seinni partinn. Ég er þeirrar skoðunar að við öll afköstum meiru ef við vinnum okkar 8 klst í vinnunni. Leikum okkur svo eftir vinnu og sofum svo í góðar 8 klst. Með slíkri rútínu höfum við meiri orku og áhuga á að mæta aftur í vinnu daginn eftir. Þetta er betri rútína í stað þess að nýta vinnudaginn illa með því að slugsa og vera í „kaffi“, því þá byrjum við að þurfa vinna frameftir og þá fáum við ekki hvíldina okkar o.s.frv. Sú rútína er ekki góð til lengri tíma.

Í fyrstu, þá fannst mér skynsemisvikan hafa gengið svo illa. Sennilega vegna þess að ég gerði ekki 100% ALLT það sem ég ætlaði að gera. Ég feilaði á hreyfingunni strax á degi tvö. Ég hélt samt áfram og þegar ég geri vikuna upp, þá voru þó nokkru markmið sem fóru inn í undirmeðvitundina og ég fór eftir þeim án þess að taka eftir því.

Eftir þessa viku þá hef ég komist að því hvað svefn er mikilvægur. Ég hef verið frekar mikið svefnlaus undanfarna daga vegna barnanna og ég finn hvað það hefur mikið áhrif á mann. Ég borða ekki gáfulega. Ég hef minni orku til að hreyfa mig. Ég kem færri hlutum í verk heima fyrir. Já, maður gerir bara það allra nauðsynlegasta.

Það má… því þetta er bara tímabil og maður er svo blessunarlega laus við það að vera fullkomin.

-Elín Kára-