Þú þarft að gera – svo aðrir geri líka

Ég er svo hjartanlega sammála henni Elísabetu Jökulsdóttur, forsetaframbjóðanda sem sagði eitthvað á þá leið í umræðuþætti á RÚV, að við þurfum að byrja á sjálfum okkur. Þurfum að breyta okkur sjálfum en ekki reyna breyta samfélaginu. Við getum bara breytt okkur sjálfum.  Ef þú vilt að umhverfið verði jákvæðara þá þarft þú að vera jákvæður. Ef þú vilt vera í betra formi, þá þarft þú að byrja hreyfa þig. Ef þú vilt betra og skemmtilegra samband við maka eða vini þá þarft þú að leggja þitt af mörkum til að það þróist í þá átt. Ekkert gerist ef við sjálf gerum ekkert.

Í stuttu máli: Þú verður ekki grannur með því að segja öðrum að hreyfa sig.   

“Æji ég nenni ekki”

Ef þú segir þessa setningu oft á dag og jafnvel oft í viku – þá skaltu ekki vera hissa á þeirri stöðu sem þú ert í dag. Þessi setning gerir þér ekki greiða á neinni hátt, ekki heilsusamlega-, fjárhagslega-, fjölskyldulega- eða vinnulega séð.

Hvernig ætlast þú til að komast í gott form með því að segja: æji ég nenni ekki. Hvernig ætlast þú til að verða vel efnuð/aður með því að segja: æji ég nenni ekki. Hvernig ætlast þú til að samband þitt við maka og börn verði gott þegar þú segir alltaf: æji ég nenni ekki. Og hvernig ætlast þú til að þú haldir starfinu þínu eða komist lengra á þínu sviði þegar þú segir oft: æji ég nenni ekki.

Þú þarft að leggja þitt af mörkum.

Þú þarft að breytast ef þú vilt að aðrir breyti.

Þú þarft að gera til að ná árangri.

Það gerist ekkert ef enginn gerir neitt.

Ég dáist af fólkinu á Borgarfirði eystra. Það vildi hafa eitthvað um að vera hjá sér í sumar. Þá kom upp sú hugmynd að halda tónleika allar helgar í sumar. Stór og galin hugmynd en unnið var að þessu og þetta er raunveruleikinn – búið er að skipuleggja tónleika allar helgar í allt sumar. Þarna á bakvið er ekki fólk sem segir: æji ég nenni ekki. Nei, þarna er sko fólk sem segir: já góð hugmynd, gerum þetta!

“Þú fyllist alltaf vellíðan þegar þú hefur afrekað eitthvað af eigin rammleik; vellíðan fylgir ávallt þeirri tilfinningu að hafa náð árangri.” – Erik Bertrand Larssen

Taka sprettinn

Sjáðu þennan sprett hjá Birki Bjarnasyni landsliðsmanni í fótbolta. Birkir var gjörsamlega búin á því eftir að hafa spilað 90 mínútur þriðja leikinn í röð. Samt sem áður hleypur hann eins og vindurinn á síðustu mínútunni. Hann leggur þennan sprett á sig til að hjálpa kollegum sínum að tryggja sigurinn. Hann gerði þetta fyrir sjálfan sig og liðið. Hann tók sprettinn þegar hann var búin á því.

Mynd tekin af vef visir.is
Birkir Bjarnason.

Hversu oft tekur þú spretti þegar þú ert alveg búin á því? Margir hefðu gefist upp. Það er einmitt það sem skilur að þá sem ná árangri og þá sem gera það ekki. Mörg lítil skref í rétta átt kemur okkur á þann stað sem við viljum fara ásamt því að taka spretti annað slagið. Ég veit ekki með þig en ég ætla að taka Birki mér til fyrirmyndar. Ég ætla að fara hlaupa nokkra spretti í mínu lífi á hinum ýmsu sviðum. 

Velja sér góða fyrirmynd

Þú ert fyrirmynd einhvers, mögulega barnanna þinna, skóla/vinnufélaga, nágranna eða ættingja. Þú getur líka verið fyrirmynd einhvers sem þekkir þig ekkert. Með því að framkvæma draumana sína þá getur þú orðið fyrirmynd fyrir einhverja aðra sem vilja gera það sama eða eitthvað svipað.

Halla er flott fyrirmynd!
Halla Tómasdóttir er flott fyrirmynd!

Það er erfitt að vera fyrstur, en um leið ertu að ryðja veginn fyrir svo marga aðra. Ég á mér margar fyrirmyndir en ég get ekki speglað mig fullkomlega í þeim öllum. Mér finnst vanta kvennfyrirmyndir. Þess vegna er ég svo glöð með Höllu Tómasdóttur og hennar framboð til forseta Íslands. Halla er sko komin í hóp þeirra sem ég tek mér til fyrirmyndar. Það sem ég tek frá Höllu er hversu kröftug hún er, jákvæð og virðuleg. Þetta, ásamt svo mörgu öðru vil ég spegla mig í og þess vegna vel ég Höllu sem ein af mínum fyrirmyndum.

 

-Elín Káradóttir-