Ég hef ekki tíma..

Algengasta afsökun fólks fyrir því að hreyfa sig ekki er að það hefur ekki tíma. Þessi afsökun er líka notuð til að réttlæta það að borða skyndibita oft í viku. Þessi afsökun er líka notuð fyrir svo margt annað eins og við þekkjum öll. Enda er tíminn sennilega eitt það dýrmætasta sem við öll eigum og um leið gerir tíminn okkur öll jöfn – við höfum öll jafn mikill tíma. Spurningin er bara; hvernig forgangsraðar þú tímanum þínum?

Ég skal viðurkenna það að ég hef þurft að díla aðeins við þessa afsökun og ég nota hana þannig að ég hafi ekki tíma til að hreyfa mig.

En bíddu aðeins Lína, Heilsu-Lína?!? Ef þú værir með alvarlegan sjúkdóm sem krefst þess að þú þurfir að sinna honum í 30 mín á dag – myndir þú hafa tíma fyrir það? Já! Alltaf! Af hverju hef ég ekki tíma til að hreyfa mig í 30 mín á dag en ég myndi samt gefa alvarlega sjúkdómnum mínum þennan tíma?? Þetta er spurning um forgangsröðun! Og já – ég þarf að minna mig á þetta eins og svo margir aðrir.

Við erum öll að heyra af fólki, rétt komin á miðjan aldur og mögulega búið að tapa stórum part af heilsunni sinni – vegna þess að það gaf sér ekki tíma til að sinna henni. „Of mikið að gera í vinnunni“, „ég þarf að taka til og halda heimili“, „mér endist ekki dagurinn til að gera allt“. Þetta eru setningarnar sem maður heyrir en svo BúMM – heilsan er allt í einu farin. Þetta er kannski dramatískt en samt sem áður raunveruleiki margra. Ég hef ákveðið að læra af þessu fólki og gera hlutina öðruvísi.

Þess vegna ætla ég að gefa mér tíma fyrir 30 mín hreyfingu – því ég á það skilið.

Hver er staðan eftir viku fjögur?

Eins og einhverjir hafa tekið eftir þá er ég í sjálfskipuðu prógrammi sem ég kalla #10peppvikur. Þar sem ég hvet sjálfa mig áfram í átt að betra lífi, mjaka mér nær kjörþyngd og vera orkumeiri. Einhverjir eru að fylgjast með mér á Instagram (@ekaradottir) og sjá hvað ég er að elda og bralla í kringum #10peppvikur.

Staðan eftir vikuna er svona:

Matarræði: Mér gengur vel að halda skammtastærðinni í eðlilegu hófi. Ég næ annað slagið í vigtina til þess að æfa augun í því að sjá hver eðlilegur skammtur er t.d. af kjúkling, fisk eða kjöti. Í heildina litið er þessi vika búin að ganga vel.

Hins vegar átti ég eitt veikleika-móment í vikunni. Mig langaði alveg rosalega í bragðaref. Ég gekk um húsið heima hjá mér og reyndi að drepa niður löngunina í þvottastússi og einhverri tiltekt en ekkert gekk. Svo ég ákvað að fara og tók vigtina mína með til þess að vita nákvæmlega hvað væri að fara ofan í refinn minn. Eftir að hafa sett það inn í MyfitnessPal appið þá komst ég að því að bragðarefurinn, sem ég slafraði í mig á einhverjum 5 mínútum innihélt 1.158 hitaeiningar! Má það bara??

Ég átti klárlega ekki inni fyrir þessum hitaeiningafölda þarna rétt undir tíu að kvöldi til. Á sama tíma var þetta eiginlega nauðsynlegt, því mig hefur ekkert, þá meina ég EKKERT langað í bragðaref síðan ég komst að þessu. 

Fyrir þá sem misstu af þessari stórskemmtilegu bragðarefs-ferð minni, þá er inn í highlights á Instagram (@ekaradottir) og öllum frjálst að skoða hana.  

Hreyfing: Tveir göngutúrar og tvisvar fór ég og gerði smá æfingar í ca 10 mín inn í bílskúr. Tók svo laugardagsæfingu.

Laugardagsæfing: 1 mín magaæfingar, 1 mín armbeygjur, 1 mín hnébeygjur, 1 km skokk/hlaup.

Vellíðan:  Mér líður vel. Ég væri til í að hlusta meira á góðar og peppandi hljóðbækur þá myndi mér líða MJÖG vel 🙂 Það er mission fyrir komandi vikur.

Vigtin: -1,4 kg.