Nokkur ráð til að lækka kostnað

Elín Kára

Já haltu þér, þetta var einn mest spennandi fyrirsögn sem ég hef nokkurn tímann skrifað. Mér finnst hún spennandi, þó ég viti að hún er ekkert sérlega sexý. Þið ykkar sem munuð fara eftir þessum ráðum, öllum eða nokkrum eru örugglega ekkert sérlega sexý á meðan verið er að framkvæma þessi atriði en þið gætuð orðið ótrúlega spennandi eftir á.

Komum okkur að efninu – hér eru nokkur ráð frá mér til að lækka kostnað.

  1. Endurfjármagna gömul fasteignalán; margir halda að þegar búið er að taka verðtryggt lán til 40 ára, að þá þurfi að sitja uppi með þetta lán í öll 40 árin. Það er ekki þannig. Þér er frjálst að endurfjármagna hvenær sem þú vilt, skipta um fjármálastofnun, stytta í láninu eða lengja. Allt eftir því hvernig þú hefur það hverju sinni. Ég mæli með því að fólk skoði á 4-5 ára fresti hvernig lánin sín eru og hvort það borgi sig að endurfjármagna. Það þarf ekki að vera að það borgi sig alltaf.
  2. Ef þú ert á gömlum bíl sem eyðir miklu, þá gæti borgað sig að fjárfesta í nýjum rafmagns eða hybrid bíl; það kostar kannski eitthvað að kaupa nýjan, en þú gætir mögulega sparað þér gríðarlega fjárhæð mánaðarlega með því að vera á sparneytnari bíl.
  3. Það eru allar líkur á að þú getir lækkað rafmangsreikninginn þinn með því að skipta um raforkusala; sparnaðurinn er mögulega ekki mikill á ári en það kostar þig ekkert að skipta nema 5 mín að sækja um flutning. Persónulega þá hætti ég að versla við Orkusöluna og fór að kaupa rafmagnið hjá Orku heimilanna. Finn engan mun – ég bara borga minna.
  4. Fáðu tilboð í tryggingarnar þínar frá öllum félögum og taktu því lægsta; ættir alltaf að fá einhverja lækkun eða í versta falli ekki hækkun. Það er samt oft hægt að fá góð kjör með því að vera lengi hjá sama tryggingarfélaginu. En það borgar sig samt að fá tilboð á hverju ári og sjá hvað aðrir eru að bjóða.
  5. Greiða reglulega inn á höfuðstól lána, þannig lækkar mánaðarleg greiðsla hægt og rólega; það er mjög einfalt að borga inn á lánin inn í flest öllum heimabönkum. Hjá sumum fjármálastofnunum þarf að fara inn á mínar síður og biðja um upplýsingar hverju sinni hvert á að borga. Það tekur smá tíma en er þess virði. Ástæðan fyrir því að þetta er gott er vegna þess að þú minnkar lánið og fyrir vikið greiðir þú minna í vexti.
  6. Minnka við sig um húsnæði. Nú súpa einhverjir hveljur við að lesa þetta. Það er samt þess virði að líta upp úr símanum eða tölvunni – horfa á húsnæðið þitt gagnrýnum augum og spurja sig: þarf ég að búa svona stórt? Að búa í minna húsnæði þýðir ódýrara húsnæði, lægra íbúðarlán sem þýðir lægri afborgun af lánum, lægri fasteignagjöld, tryggingar, hiti og rafmagn.
  7. Farðu í gegnum allar áskriftir; fyrir hvað ertu að borga mánaðarlega? Margar áskriftir eru sniðugar á meðan aðrar eru það ekki. Farðu yfir kreditkortið og reikningana þína – hvað ertu með í áskrift og þarftu þetta allt? Er eitthvað sem þú ert ekki að nota? Þetta getur verið fjölmiðill, ræktin, vörur eða þjónusta. Kauptu eingöngu það sem þú notar! Prófaðu að hætta að kaupa „þetta“ í smá tíma og sjáðu hvort þú saknar þess þegar það er farið.
  8. Í hvað fara peningarnir á venjulegum degi? Ég hvet þig til að fara yfir hvað þú ert að eyða peningunum þínum í á hverjum degi. Er eitthvað sem þú hefðir getað sleppt því að kaupa eða var þetta allt alveg nauðsynlegt?Það má alltaf finna eitthvað sem maður ætti ekki að eyða í amk eyða minna í s.s. gos, skyndibita, áfengi, föt og fleira. Reyndu að fækka sjoppufærslum*.
*Sjoppufærslur eru algjörlega óþörf útgjöld t.d. þegar maður verslar föt á útsölu bara vegna þess að það er útsala. Kemur við í sjoppu og kaupir eitthvað að borða en er ekki svangur. Þetta eru færslur sem verða til þegar manni leiðist og fyrir vikið fer maður og verslar sér eitthvað til afþreyingar.