Nýtt ár framundan

Árið 2020 var, þegar í baksýnisspegilinn er litið, stórgott ár að mínu mati. Auðvitað var margt erfitt á árinu en í erfiðleikum lærir maður svo margt og verður þakklátur fyrir það litla í lífinu. Ef 2020 hefur kennt mér eitthvað, þá er það að sinna grunninum; hugsa um heimilið sitt og fjölskyldu. Það er ekki sjálfsagt að hafa heimili og ennþá síður fjölskyldu. Margir voru búnir að gleyma þessu og ég þar með talin, og ég held að öll heimsbyggðin hafi verið búin að gleyma grunninum í kapphlaupi lífsgæðanna. Svo eru menn stoppaðir af og þá gefst loksins rými til að hugsa, eitthvað sem margir voru hættir að gefa sér tíma til að gera – hugsa – og þá áttar maður sig á því að það sem skiptir í raun mestu máli er grunnurinn.

Nú eru tímamót og nýtt ár framundan. Mikil tilhlökkun er í loftinu, tilhlökkun fyrir því einu að fá að hittast og gefa hvort öðru knús. Tilhlökkun fyrir gerfiþörfum hefur fengið að víkja fyrir því einfalda og því sem við vorum farin taka sem sjálfsögðum hlut. Ég er mest spennt fyrir því að geta labbað um án grímunnar og brosað framan í mann og annan 

Finna hamingjuna í tímamótum

Áður en ég eignaðist mann og börn þá fannst mér nýjársdagur með leiðinlegri dögum sem ég vissi um. Það var kalt, þynnkan var yfirþyrmandi og ég fann fyrir mjög miklu tómarúmi í lífinu. Nýtt ár að byrja og ég fann ekki beint gleðina í því. Ég var á nákvæmlega sama stað ár eftir ár, aftur og aftur – sitjandi í stofunni heima að horfa út um stofugluggan og sá fátt spennandi við nýtt ár því síðasta ár gekk ekki svo vel hjá mér.

Einhverra hluta vegna sá ég bara það sem miður fór á árinu. Ég sá ekki allt það sem ég gerði skemmtilegt, allt það sem ég kláraði og afrekaði á árinu – sem var nú alltaf eitthvað því ekki sat ég auðum höndum yfir árið. En einhverra hluta vegna fann ég ekki gleðina á nýjársdag þó ég væri almennt mjög glöð mest allt árið.

Fyrir sjö árum síðan setti ég mér það að drekka ekki á gamlárskvöld. Það er glatað að fara inn í nýtt ár þunnur og ryðgaður! Við þá ákvörðun finnst mér bæði gamlársdagur og sérstaklega nýjársdagur miklu skemmtilegri dagar.

Annað sem ég hef gert, er að setjast nokkrum sinnum niður síðustu dagana fyrir áramótin og hef farið yfir allt sem skiptir mig máli og hvað mig langar að gera. Ég hef farið á ferðalag í huganum og fundið djúpa löngun fyrir öllu því sem ég vil gera og gefa af mér á nýju ári. Þetta er ferðalag sem allir geta farið í og það kostar ekkert nema smá tíma (sem lang flestir hafa fengið meira af á þessu ári).

Ég hvet þig til að setjast niður með blað og penna og punktaðu niður hjá þér nokkur atriði sem þú vilt gera eða gefa af þér á nýju ári.

Þegar ég byrjaði á þessu þá hef ég elskað nýjársdag. Hugarfarið hefur breyst svo mikið og vellíðan eftir því. Í dag er þetta uppáhaldsdagurinn minn.

Nýtt ár – ný tækifæri – nýtt upphaf.

Vakna fersk, borða góðan morgunmat með fjölskyldunni. Fara út, hreyfa sig og leika sér. Fara aðeins betur yfir langtímamarkmiðin fyrir árið og finna orkuna í tímamótunum sem áramót eru. Já gott fólk – þetta er besti dagurinn á árinu!

Áramótakveðja,

Elín Kára