Áfengislaust líf – viðtal

Ég hef verið mikil áhugamanneskja um áfengislaust líf í nokkur ár. Mér finnst gaman að sjá hversu mörg ungmenni eru að velja sér áfengis- og vímuefnalaust líf alla tíð. Mér finnst líka gaman að heyra sögur af fólki sem hefur ákveðið að hætta djamm-drykkju eða alvarlegri drykkjusiðum, og heyra hvað þessu fólki hefur gengið mun betur í lífinu eftir að áfengislaust líf tók við.

Ég tók viðtal við tvo einstaklinga með ólíkan áfengislausan bakgrunn. Annars vegar er það Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls ákvað það sem ung stúlka að nota aldrei áfengi og hefur staðið við það, ný skriðin yfir þrítugt. Hins vegar er það Sigurður Stefán Kristjánsson, smiður og athafnamaður, sem ákvað það eftir mörg djamm-drykkjuár að hætta að láta áfengi stjórna sér, tæplega þrítugur og fara að ná árangri í lífinu.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir

Dagmar Ýr Stefánsdóttir

„Ég ákvað mjög snemma að ég ætlaði ekki að drekka áfengi eða þegar ég var 13 ára og ólíkt mörgum öðrum sem taka þessa ákvörðun ungir þá bara stóð ég við hana“. Dagmar Ýr gerði samning við móður sína um að hún myndi ekki drekka fyrir tvítugt og ef hún myndi standa við það, þá yrði ákveðin peningaupphæð greidd út. Þessi samningur á milli þeirra mæðgna var þó ekki það sem hafði úrslitavaldið í því að Dagmar hélt sig við ákvörðun sína, þá var ekki heldur áfall eða slæm reynsla af drykkju sem bjó að baki. „Það sem varð til þess að ég var svona staðföst var einfaldlega að þetta var lífstíll sem heillaði mig ekki og gerir ekki enn í dag“. Dagmar grínast með að hún sjái helst eftir því að hafa ekki samið um hærri peningaupphæð við móður sína til að græða meira á þessu, enda var upphæð sem var há í augum þrettán ára barns ekki jafn há í augum tvítugrar konu. Þrátt fyrir þau mistök þá fann Dagmar ekki löngun til þess að byrja drekka áfengi eftir tvítugt og finnur ekki enn.

Unglingsárin eru mörgum erfið.

Margir finna fyrir þrýstingi frá vinahópnum og setningar eins og: „Hva, ætlaru ekki að fá þér?“ heyrast margoft í partýum. Dagmar fann sjaldan fyrir þrýstingi um að hún þurfi að drekka eins og allir hinir. „Ég man alveg eftir einhvern tímann að hafa heyrt í partýi: „Hvað ætlaru ekki að fá þér?“ En ég hafði litla þolinmæði fyrir svoleiðis nuddi og fólk hætti alveg að reyna að ýta þessu að mér. Ég man eftir einu skipti þar sem það var einhver með svona dólg og þá tók vinkona mín upp hanskann fyrir mig og tilkynnti hátt og skýrt að ég drykki ekki og þar við sæti! Sjálf var hún náttúrlega alveg blekuð. En ég man mér þótti vænt um þetta.”

Þó svo að Dagmar hafi ekki fundið fyrir þrýstingi sjálf, þá má segja að það hafi verið vegna þess að hún lét þetta ekki hafa áhrif á sig. Hins vegar er Dagmar á þeirri skoðun að samfélagið í heild ýti undir áfengisdrykkju: „Þetta er náttúrulega normaliserað í drasl“ eins og hún orðar það. Henni finnst skrýtið að flestum þyki það fullkomlega eðlilegt að vera alltaf undir áhrifum þegar fólk kemur saman. Dagmar vill meina að þetta sé þó að breytast og tekur eftir því að mun fleira ungt fólk velur sér áfengislaust líf nú en þegar hún var á unglingsárunum.

Ég hef alltaf „verið með“ í partýum

Margir þora ekki að sleppa áfenginu af ótta við að „vera ekki með“ og vera ekki velkomin í partý. Dagmar man ekki eftir því að það hafi nokkurn tímann gerst. Hún segist í gamansömum tón vera svo „sjúklega skemmtileg“ að henni var alltaf boðið og svo fannst vinum hennar mjög þægilegt að hafa alltaf bílstjóra. Þannig að Dagmar fann ekki fyrir því að hún væri útundan fyrir það eitt að vera edrú. Þá hefur hún aldrei upplifað í samkvæmum að hún þurfi að halda á vínglasi til þess að taka þátt í samræðum við fólk eða almennt „vera með“ í því sem er að gerast. Sumir finna fyrir því að þá langar til að fá sér eitt vínglas og þurfa að eiga langt samtal í hausnum á sér til þess að sannfæra sig um að það sé ekki góð hugmynd. Þar sem Dagmar hefur aldrei drukkið áfengi þá hefur hún aldrei þurft að eiga slíkt samtal við sjálfa sig og hún hefur ekki fundið fyrir því að hún sé að missa af neinu.

Þar sem Dagmar hefur aldrei drukkið áfengi þá liggur beinast við að spyrja hana um viðhorf til áfengis. „Ég reyni nú að passa mig að vera ekki fanatísk af því að ég get alveg skilið að það sé til fólk sem finnst vín með mat gott. Ef ég á von á gestum í matarboð sem ég veit að finnst gott að drekka vín með mat þá fer ég alveg og kaupi flösku. En þessi þörf til að drekka sig fulla eða fullan er algjörlega ofar mínum skilningi. Þegar fólk er komið á visst stig í drykkju þá verður það, tja, bara frekar leiðinlegt. Ég hef í gegnum tíðina horft á vini mína drekka þangað til þau grenjuðu og slógust og hreinlega umbreyttust í manneskjur sem ég þekkti ekki. Mér er fyrirmunað að skilja að einhver vilji vera í slíku ástandi.”

Dagmar heldur áfram: “Mér finnst rosalega mikilvægt að hafa alltaf fulla stjórn á þeim aðstæðum sem ég er í og að það sé mitt val ef ég vil láta eins og asni og dansa upp á borðum. Ég geri það nefnilega alveg! Ég fór oft í skemmtistaðasleik og gerði alls konar vitleysu þegar ég var ung – en ég notaði bara ekki þá afsökun eins og sumir að “ég hefði bara verði svo drukkin.” Stundum finnst mér það viðkvæðið – að fólk þurfi að hafa þessa afsökun til að sleppa fram af sér beislinu. Ég mæli með því að allir prófi að gera þessa hluti ódrukknir, það er nefnilega alveg hægt og kannski bara miklu skemmtilegra, ég veit það ekki, hef ekki samanburðinn“.

Dagmar heldur sínum áfengislausa lífsstíl fyrir sig. Hún reynir ekki að vera einhver siðapostuli fyrir aðra. Hún hefur þó tekið samtalið við sitt nánasta fólk, ef henni þykir áfengisdrykkjan komin út fyrir eðlileg mörk, en blandar ekki sínum lífstíl saman við það.

Mikil lífsgæði í lífstílnum

Lífstíllinn hennar Dagmarar hefur fært henni heilmikil lífsgæði. Hún er alveg hörð á því að hún sé heilsteyptari manneskja vegna lífstílsins og að hún hafi aldrei misst af neinu. Það vantar ekkert í upplifunarbankann og lífið sé ekki takmarkað að einhverju leyti vegna þess að hún drekkur ekki áfengi – „nei, þvert á móti bara“ segir hún.

Að lokum vill Dagmar hvetja fólk til þess að láta sér ekki leiðast þótt það drekki ekki áfengi. Dagmar er lifandi sönnun þess að maður getur vel skemmt sér vel án þess að drekka áfengi. „Ég hef meira að segja lent í rifrildi við fólk sem vildi ekki trúa því að ég drykki ekki áfengi þegar það hitti mig úti að skemmta mér“.

 

Sigurður Stefán Kristjánsson

Siggi tesla
Sigurður Stefán Kristjánsson

„Ég hætti 11.júlí 2016. Síðan þá hef ég skálað einstaka sinnum í einu glasi af víni eða bjór, telur kannski sex skipti. Síðast skálaði ég í lok júlí á þessu ári og eftir það fann ég fyrir ennþá meiri þörf fyrir að leggja þetta meira á hilluna“. Sigurður Stefán eða Siggi tesla, eins og hann er iðulega kallaður hefur sett alla djamm-drykkju til hliðar en einstöku sinnum skálað með sínu nánasta fólki við sérstök tilefni.

Það liggur beinast við að spyrja Sigga fyrst að því hvernig hann notaði áfengi áður fyrr. „Áfengið notaði mig, ég drakk áfengi nánast á hverjum degi. Árin 2009-2011 var maður ungur og vitlaus, djammaði mikið og oftar en flestir. Ég var komin uppá næsta stig í neyslu árið 2016, þá upplifði ég mjög margt sem ég mun aldrei gleyma. Ég var búin að mála mig alveg út í horn; löggan að bíða eftir að ég tæmdi einbýlishúsið sem ég bjó í, ég var búin að vera vakandi í þrjá sólarhringa og ofan á allt var ég á leiðinni í mánaðar Evrópureisu með engan pening. Þá áttaði ég mig á því að ég væri búin að vera gera einhverja vitleysu.“

Siggi segir áfengisdrykkjuna hafa verið orðið vandamál. Hann lýsir því þannig að hugurinn verður skýjaður, þannig að rökhugsun og almenn skynsemi dvína og þá byggir maður upp vandamál sem maður forðast og vill ekki takast á við. Siggi hefur náð mjög góðum tökum á sjálfum sér, því hann finnur ekki fyrir stjórnlausri löngun í áfengi og hann þarf ekki að eiga strangt samtal við hausinn á sjálfum sér í samkvæmum. Hann hefur skálað einstaka sinnum við vini sína, frá því að hann tók ákvörðunina en í öll skiptin hafði hann ákveðið það áður en hann mætti í samkvæmið. „Það er hefð fyrir því að skála í kampavíni á áramótunum til dæmis, ég er með í því“.

Af hverju tekur þú ákvörðunina að hætta að drekka?

Áfall, of stórt djamm og búin að fá nóg. Samblanda af þessu öllu varð til þess að Siggi tók ákvörðunina. „Ég var leitandi en vissi ekki af hverju ég var að leita, mig vantaði stöðuleika. Allt í einu fattaði ég hvað maður hefur verið að halda aftur að sér. Margir vilja breytingu en vita ekki hvar á að byrja eða hverju þarf að breyta. Ég er á því að maður þarf að byrja á sjálfum sér og takast á við sjálfan sig“. Siggi tókst á við sjálfan sig og tók þessa ákvörðun uppá eigin spýtur og hefur ekki ennþá leitað stuðnings til hjálparsamtaka en viðurkennir að það styttist alltaf í að hann fari að mæta. Hann hefur áhuga á að hjálpa sjálfum sér og Siggi er þeirrar skoðunar að einungis því fólki er hægt að hjálpa.

Skemmtilegasti vinur vina minna

Siggi á marga góða vini og hefur ekki kynnst því að honum sé ekki lengur boðið í partý eftir að hann lagði áfengi á hillu. „Ég er skemmtilegasti vinur vina minna og það er ekki að fara breytast“ segir Siggi og hlær. Hann vill meina að samband hans við vini sína hefur orðið sterkara og betra heldur en það var áður. Sömuleiðis hafa lífsgæði Sigga orðið töluvert betri eftir að hann hætti að drekka. „Það er ekki hægt að lýsa tilfinningum, þetta sést bara á manni. Orkan er öðruvísi í kringum mig og maður breytir um áherslur. Sumt fólk þurfti að fara og nýtt fólk kom inn í staðinn til þess að halda áfram með mér í ferðalagi sem kallast líf. Lífið á að vera skemmtilegt, óhindrað og frjálst.“

Siggi mælir með því við fólk að velja sér áfengislaust líf ef það vill. Hins vegar mælir hann með því að fólk fari að taka sjálfan sig meira alvarlega. Hann hvetur fólk til þess að setja sér markmið, endurmeta stöðuna, setja ný markmið, ná þeim og svo koll af kolli. Þegar þessum markmiðum er náð þá verður til árangur. „Ef þú ert með markmið um að geta meira, gera meira og vera meira þá ættir þú að prufa að hætta að drekka áfengi,“ sagði Siggi með glampa í augunum.

„Hvað er að hindra fólk í að breyta?“ spurði Siggi tilbaka þegar ég spurði hann út í einhver ráð til fólks sem nær ekki að taka skrefið 100% til fulls og hætta að drekka. „Ég veit hvað er að hindra þig, það er hræðsla. Hræðsla við manneskjuna í speglinum á morgnanna. Hún er hrædd við þig og þú ert hræddur við hana. Það eina sem stendur milli þess sem þú ert og það sem þú vilt verða er dagurinn í dag, sem endurspeglar gærdaginn og leggur grunn að morgundeginum“.

Mitt eigið áfengislausa líf

„Nú er ég hætt að drekka“
Elín Kára

Var setning sem ég sagði nánast eftir hverja helgi á djammárunum (frá 18-24 ára). Ég hafði ekki gaman að djammviskubitinu (sjá eftir því að hafa sagt/gert eitthvað við einhvern sem betur mátti sleppa) og ég þoldi ekki að eyða heilum degi í að vera þunn. En næsta föstudag var þessu sko öllu gleymt og uppúr kl. 16 á föstudögum var komin djammskjálfti í mann. Hvað skyldi maður gera skemmtileg um helgina, er örugglega til nóg af áfengi fyrir alla helgina… ætli þetta verði ekki bara HelGIN með skemmtilegasta djammi ársins?

Svona gekk lífið í mörg ár. Hring eftir hring. Ég þoldi ekki að ég hafi drukkið um helgina á sunnudegi og mánudegi og svo á föstudegi var öllu gleymt. Því það er svo gaaaaaaman að vera til og það er svo mikið fjör, og það er aldrei alveg jafn gaman ef maður er edrú… sérstaklega ekki ef fleiri en einn (sá sem keyrir) er edrú.

Svona var viðhorf mitt til skemmtana frá 16 ára aldri til rúmlega 23 ára. Ég drakk ekki dropa af áfengi frá 17 -18 ára, því ég var í skiptinámi og mátti ekki drekka. Vá hvað einkunnir urðu betri og almenn vellíðan jókst til muna. Samt sem áður, eftir að ég kom heim úr skiptinámi þá datt ég góðan djammgír og drykkjan eftir því. En ég mundi alltaf hvað mér leið vel þetta eina ár sem ég drakk ekki.

Einn daginn ákveður maður að breyta

Ég var djammari og drakk um helgar með vinunum, í rauninni ekkert öðruvísi en margt ungt fólk hér á landi. En einn daginn nennti ég þessu ekki lengur. Ég nennti ekki að eyða heilum sunnudegi í að liggja og gera ekki neitt. Ég nennti ekki lengur að vera alltaf að byrja ræktarprógrammið aftur á hverjum mánudegi, mig langaði að fara sjá árangur. Ég nennti ekki lengur að lifa sömu árin aftur og aftur.

Mig langaði til að taka framförum, byrja að ná árangri. Mig langaði til að fara nálgast draumana mína. Þegar ég skrifaði þá alla niður á sínum tíma, þá var ég fljót að sjá að áfengi var ekki að hjálpa mér að nálgast þessa drauma. Þetta var nóg fyrir mig til þess að leggja áfengi til hliðar og byrja að njóta lífsins svo gott sem áfengislaus. Ég segi „svo gott sem“, vegna þess að árið 2014 djammaði ég 2x og svo hef ég fengið mér 1-2 vínglös á ári, frá byrjun 2015 við sérstök tilefni; og átti mjög erfitt með að klára úr glasinu.

Og nei, ég sakna áfengisins ekki.

Og já, ég hef skemmt mér mjög vel á samkomum síðan. Hlegið hátt, fíflast, spjallað við fólk og svo keyrt sjálf heim þegar mig langar. Algjört æði.

Þetta hljómar rosalega einfalt og fyrir mig var það þannig. Ég átti ekki við áfengisvandamál að stríða, ég var bara drykkju-djammari. Ég fór að hugsa rökrétt og setti niður draumana mína. Það var nóg fyrir mig til þess að hafa nánast engan áhuga á að drekka áfengi. Ég fæ ekki föstudagsskjálfta, mig langar ekki í drykk þegar ég er á árshátíð eða öðrum samkomum og áfengi truflar mig ekki neitt. Sem er algjör snilld. Þetta er frábær staður til að vera á.

Sumir þurfa aðstoð við að hætta að drekka áfengi og halda sér þannig. Ég er mjög stolt af þeim sem hætta með aðstoð og halda sér þannig. Fyrir mér er það merki um að fólk tók stjórn á sínu lífi.

 

-Elín Káradóttir-

2 athugasemdir við “Áfengislaust líf – viðtal

  1. Guðrún Brynjólfsdóttir

    Vel gert!
    Flottur pistill Elín!
    Ég er sjúklega ánægð með að fólk velji sér áfengislausann lífsstíl, ég geri það sjálf mest megnis, og líkar það vel :*

  2. Hanna Dóra Magnúsdóttir

    Flott.
    Góð viðtöl.
    Ég er ekki bindinis kona eða óvirkur alki.
    En kýs að drekka ekki áfengi.

Lokað er á athugasemdir.