10 km löng leið

Ég var að hugsa um að hafa titilinn „10 km hlaup“ en það var eiginlega ekki hægt, því ég hljóp ekki 10 km um daginn – neeei, ekki alveg. Ég fór samt 10 km langa leið í mínu fyrsta skipulagða hlaupi sem var haldið á Mývatni fyrir stuttu.

Fyrir þetta „hlaup“ þá hafði ég einu sinni áður farið 10 km í einu skokki og það var árið 2013. Þannig að 6 árum síðar og tveimur börnum þá skellti ég mér í skipulagt hlaup og fór 10 km langa leið. Ég hljóp, skokkaði og labbaði leiðina. Þetta var erfitt og á tímabili hugsaði ég: „af hverju í ósköpunum skráði ég mig í þessa vitleysu??“.

Hópurinn sem fór 10 km var keyrður með rútu frá Jarðböðunum á Mývatni í átt að Vindbelg og þar vorum við skilin eftir. Heim skildum við hlaupa. Þegar við vorum að keyra þá hugsaði ég: „þetta getur ekki verið svona löng leið“, „nei stoppaðu rútuna, 10 km er ekki svona langt“, „eigum við í alvöru að hlaupa upp þessar brekkur???“. Já – þá hafa hugsanir mínar verið opinberaðar. Ég var mjög stressuð þegar ég var að byrja og vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að klára þetta.

Innan við einum og hálfum tíma síðar komst ég í mark. Þvílíkur sigur fyrir mig að komast alla leið. Já, það er sigur að vera vel yfir 15 kg of þung og koma mér þessa leið. Já, það er sigur að hafa ekki pissað á mig á leiðinni (sem var mitt helsta áhyggjuefni fyrir hlaupið). Já, það er sigur að mæta, hlaupa og gefast ekki upp.

Þegar ég hugsa um hlaupið í dag þá var þetta svo gaman! Það var svo gaman að fara með vinkonum sínum og fá peppið frá þeim. Það var svo gaman að hlaupa/skokka í hóp (ég sem hef alltaf haldið að það sé best að hlaupa einn). Það var svo gaman að hlaupa/skokka í svona fallegu umhverfi. Það var svo gaman að gera eitthvað sem er vel útfyrir þægindaramman hjá sér.

Næsta markmið: Reykjavíkurmaraþonið og bæta tímann á 10km hlaupinu.

Algengasta spurningin síðustu daga: „Hefur þú getað hlaupið aftur eftir 10km á Mývatni?“ Svar: nei, ekki einu sinni skokkað! Ég er í recoverý-mode! 🙂

-Elín Kára-