Einfaldaðu umhverfið þitt – heimilið!

Oft komum við ekki hlutum í verk og ástæðurnar fyrir því geta verið margar. Afsakanirnar sem við seljum okkur fyrst er: „ég er svo þreytt“ eða „ég hef ekki tíma“. Þetta eru setningar sem við segjum sjálfum okkur ítrekað til þess að forðast verkefnin okkar. Ég hef verið sek um þetta sjálf – oft!

Ég hef tekið ákvörðun um að láta ekki lífið trufla mig of mikið og í kjölfarið ákveðið hvernig ég vil hafa mitt líf. Stór partur af þeirri ákvörðun er að koma hlutunum í verk og hafa hlutina eins og ég vil hafa þá – en ekki láta þá bara vera einhvern veginn. Og detta svo í þann gír að kenna öllum öðrum um hvernig allt er hjá mér.

Margir eiga bágt með að taka ákvörðun um að láta lífið ekki trufla sig. Og margir eiga líka erfitt með að koma hlutunum í verk.

Hluti af því gæti verið vegna þess að þú ert með allt of mikið af hlutum/dóti í kringum þig og þá einna helst inná heimilinu hjá þér. Allir hlutir valda ákveðnu áreiti og ef þeir eru of margir á sama staðnum verður áreitið of mikið. Of mikið áreiti veldur þreytu og pirringi hjá fólki.

Þetta er iðulega aðalástæða þess að fólk kemur hlutunum ekki í verk.

Verkefni dagsins

Prófaðu að taka til í einum skáp eða skúffu í eldhúsinu heima hjá þér.

Taktu allt úr skápnum/skúffunni sem þú notar sjaldan og settu það í box. Geymdu boxið þar sem þú getur gengið í það ef þig vantar eitthvað úr því.

Hentu því sem þú notar aldrei eða er ónýtt.

Að tiltektinni lokinni ætti skápurinn eða skúffan að innihalda eingöngu það sem þú notar reglulega og það á að vera auðvelt að nálgast hlutinn.

Hér eftir þarft þú ekki að leita lengur að hlutunum.

Spurningar til þín: Hvernig leið þér eftir að hafa tekið til í skápnum/skúffunni? Var ekki þægilegra að ganga um? Hvernig helduru að þér liði ef þú færir svona í gegnum allt heimilið?

Af hverju?

Þegar þú tekur til og fækkar hlutum á heimilinu þá verður einfaldara að koma öðrum hlutum í verk. Á sama tíma þá minnkar þreyta og pirringur hjá þér. Fyrir vikið verður til auka tími sem þú getur nýtt í eitthvað annað.

Ekki bara taka til – taktu til með því að einfalda og létta þér lífið.

Mundu: eitt í einu.

– Elín Káradóttir –

Ein athugasemd við “Einfaldaðu umhverfið þitt – heimilið!

  1. Bakvísun: Einfaldaðu umhverfið þitt – heimilið! – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.