Of stórt hús, fullt af dóti

Elín Káradóttir

„Svo erum við búin að komast að því að stór hús eru ofmetin þar sem við búum mjög lítið og það fer ótrúlega vel um okkur“ skrifaði vinkona mín á Facebook fyrir helgi. Ég er sammála henni, stór hús eru ofmetin.

Er til einhvers að eiga marga fermetra aukalega til þess eins að þrífa og safna dóti? Væri ekki sniðugara að eiga húsnæði sem hentar þinni fjölskyldustærð, í stað þess að eiga húsnæði sem þú fyllir af dóti sem enginn vill eiga eftir að þú ert fallin frá?

Margt ungt fólk í dag vill upplifa hluti, sjá meira af heiminum og fjárfesta í minningum. Margir eru farnir að hugsa í lausnum, hvað húsnæði varðar og nýta betur hvern fermeter til þess að hafa þá ekki of marga. Það er hálf galið að borga fyrir fullt af fermetrum sem þú notar lítið sem ekkert. Mér sýnist líka að unga fólkið sé frekar að velja sér upplifun í stað þess að eyða öllum sínum peningum í stórt húsnæði sem fyllist af dóti sem enginn vill eiga eftir mörg ár.

Er geymslan þín svona?
Er geymslan þín svona?

Fyrir nokkrum áratugum þegar fólk hafði ekki mikið á milli handanna var margt geymt til þess að geta rétt næstu kynslóð eitthvað þegar þau byrja að búa.

Í dag er ekki mikil þörf fyrir slíkt. Ég heyri oft af fjölskyldum sem eru að gera upp dánarbú afa og ömmu og það vill enginn neitt. Allir eiga allt og gott betur en það. Þannig að dótið þeirra endar iðulega í góða hirðinum.

Til hvers ætti ég að geyma allskonar dót í mörg ár eða jafnvel áratugi?

Sóun

Stórum húsum fylgir sóun. Peningasóun vegna þess að þú ert að borga fyrir fermetra sem þú notar ekki. Meiri peningasóun vegna þess að þú reynir að fylla stóra húsið af dóti svo það sé ekki tómlegt. Tímasóun vegna þess að það tekur þig meiri tíma að halda stóru húsi hreinu. Orkusóun því það er dýrara að halda hita og vera með rafmagn í stærri húsum. Í grunninn er þetta líka umhverfissóun vegna þess að á endanum fer stór hluti af þessu öllu í ruslið. Þú áttar þig á því að allt þetta dót sem þú hefur verið að safna gefur þér lítið sem ekkert.

„Nauðsynlegt að flytja annað slagið“.

Sumir segja að það sé svo gott að flytja reglulega, því þá hendir maður svo miklu dóti. En af hverju að safna dótinu til að byrja með? Mér hefur fundist hressandi að taka til annað slagið, fara yfir skúffur, skápa og hillur. Henda öllum óþarfa, raða uppá nýtt og setja í kassa því sem sjaldan er notað.

Gott er að fara í gegnum dótið af og til, eins og maður sé að fara flytja og spurja gagnrýnið hvort einhver þörf á þessu dóti. Ef ekki, þá skaltu ekki vera fylla geymslurnar þínar af því. Því það er sóun. Svo gæti einhver annar haft mikla þörf fyrir þetta – svo það er um að gera að drífa dótið í Rauða Krossinn, Góða Hirðinn eða á Sorpu.

-Elín Káradóttir-

 

 

Ein athugasemd við “Of stórt hús, fullt af dóti

  1. Bakvísun: Of stórt hús, fullt af dóti – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.