Tekur þú mánaðarlegan stöðufund með sjálfum þér, þar sem þú ferð yfir fjármálin þín? Tekur þú stöðufund með makanum þínum? Ef þú svarar þessum spurningum neitandi – þá væri sniðugt að byrja á því núna.
Ég tel það nauðsynlegt að taka stöðufund með makanum mínum í hverjum mánuði, þar sem við setjumst niður og förum yfir hver staða okkar beggja er. Áður en ég byrjaði í sambúð þá tók ég alltaf fjármálastöðuna með sjálfri mér. Það var ekki síður nauðsynlegt þegar ég bjó ein. Að taka stöðuna er fyrir alla, bæði þá sem búa einir og eru í sambúð.
Af hverju byrjuðum við á þessu?

Einn mánuðinn tæmdust sjóðirnir hjá okkur báðum vegna óvæntra útgjalda. Við töldum okkur eiga þokkalega sjóði en röð atburða gerði það að verkum að þeir tæmdust. Eftir þetta fórum við að setjast niður í hverjum mánuði og segja/sýna hvort öðru hver staðan er hverju sinni. Þannig urðum við meira meðvituð um stöðuna hjá okkur sjálfum og um leið heimilisins.
Mánaðarlegur fjármálafundur
Í upphafi voru fundirnir svolítið kjánalegir og óþægilegir. Það var skrýtið að ræða fjármál sín og þurfa svara fyrir alls konar sjoppufærslur* sem maður var ekki stoltur af. En með tímanum urðu þessir fundir að venju og þetta breyttist í eitthvað sem maður vill alls ekki sleppa.
Það er ekki nóg að setjast niður og segja „ég er í fínum málum“. Nauðsynlegt er að segja frá hver staðan er og skrá niður allar tölur, annað hvort á blað eða í tölvu, t.d. í Excel. Gott er að hafa skráninguna einfalda en passa samt að hafa allt með sem skiptir máli. Í framhaldinu er gott að ræða hvaða útgjöld eru í komandi mánuði, eru einhverjir stórir kostnaðarliðir væntanlegir á næstu mánuðum og fyrir hverju er verið að spara?
Hvernig fer fjármálafundur fram?
Það er algjörlega nauðsynlegt að báðir aðilar séu vel upplagðir og hafi átt góðan dag þegar fundurinn fer fram 🙂 Það er ekki til ein ákveðin leið til þess að halda fundinn. Við erum með það fyrirkomulag að við setjumst niður í byrjun mánaðarins eftir að allir reikningar eru greiddir. Þá sláum við inn í Excel stöðuna hjá hvort öðru. Í Excel skjalið skráum við stöðuna á debetkortum, sparnaðarreikningum, hlutabréfum og öðrum reikningum sem við eigum (engin aflandsfélög samt). Eins skráum við stöðuna á lánunum í hverjum mánuði.

Fyrir þá sem vilja taka þetta alla leið – þá mæli ég með að báðir aðilar sýni færslulistann á debet/kredit kortinu sínu. Þetta er mjög óþægilegt fyrst en veitir gott aðhald og sjoppufærslum fækkar iðulega í kjölfarið.
Kostirnir við fjáramálafundinn
Báðir aðilar vita alltaf stöðu hvors annars og um leið heildarstöðu heimilisins. Þið vitið stöðuna á lánum, sparnaði og lausum pening. Fyrir vikið er auðvelt að sjá þróun á eignum og skuldum, frá einum mánuði til annars.
Með þessu ertu betur í stakk búin til þess að skipuleggja framtíðina og þú ert undirbúnari fyrir óvænt útgjöld, sem koma alltaf annað slagið. Hagfræði kennari minn sagði það algjört lágmark að eiga 400þ kr. í sjóð, ef eitthvað skyndilegt kemur fyrir.
Stór kostur við fjármálafundinn er að báðir aðilar eru meðvitaðir og ábyrgir fyrir útgjöldum heimilisins. Það ætti ekki að vera í höndum annars aðilans að sjá um öll útgjöld. Ég mæli með að báðir aðilar séu saman í kaupum á dýrum vörum en ekki að einn daginn komi makinn heim með t.d. grill á pallinn þegar hinn er að safna fyrir sumarfríi fjölskyldunnar.
Ennþá stærri kostur er sá að þú munt aldrei aftur þurfa segja setninguna: „ég bara borga visa reikninginn og pæli ekkert í þessu, svo allt í einu fór ég að taka eftir að x fyrirtæki er búið að vera rukka mig óeðlilega í MARGA mánuði.“
Ímyndaðu þér hversu þægilegt það er að taka ábyrgð á sínum fjármálum og þurfa ekki að kenna öðrum um óþarfa útgjöld.
Við höfum upplifað alla þessa kosti. Þar að auki hefur okkur tekist að leggja meira til hliðar en á sama tíma náð að gera allt sem okkur langar til. Þetta hefur virkað vel fyrir mig og okkur. Ég hvet þig til að skoða þessi mál hjá þér og sjáðu hvað þú getur gert betur í fjármálunum þínum.
*Sjoppufærslur eru algjörlega óþörf útgjöld t.d. þegar maður verslar föt á útsölu bara vegna þess að það er útsala. Kemur við í sjoppu og kaupir eitthvað að borða en er ekki svangur. Þetta eru færslur sem verða til þegar manni leiðist og fyrir vikið fer maður og verslar sér eitthvað til afþreyingar.
Ef þú vilt fá sent tilbúið Excel skjal þar sem þú getur sett inn tölurnar þínar, þá er þér velkomið að senda tölvupóst á elinkara@icloud.com Taktu ábyrgð á þínum fjármálum - gerðu þetta fyrir þig.
Góður pistill hjá þér Elín Káradóttir. Orð í tíma töluð.