Tíminn… það sem allir eiga

„Alltaf nóg að gera, alveg brjálað að gera hjá mér“ er oft það fyrsta sem fólk segir þegar maður fer á spjall við gamla kunninga. Þetta sama fólk er einhverra hluta vegna að senda mér tillögur að leikjum til að spila á Facebook. Þetta sama fólk er líka með allt á hreinu í ca 2-3 sjónvarpsseríum og oft er þetta sama fólk með svo marga á snapchat að það tekur ca 20-30 mín að fara í gegnum allt my-story-ið. „Jább, ég skil þig, alltaf brjálað að gera“. (Ekki misskilja mig, ég hef ekkert á móti leikjum á netinu, sjónvarpsþáttum eða skoða snapchat. Hins vegar eru þetta ekki hlutir sem ég tel með þegar ég hef nóg að gera þó svo að sumir geri það). 

Við erum öll jöfn! Við höfum öll 24 klukkutíma í sólarhringnum. Munurinn á fólki er, hvernig menn velja að eyða þessum tíma.

Fólk er alltaf að keppast við tíman en á sama tíma fara margir oft illa með tímann. Skipulag hvers og eins gerir það að verkum að sumir ná að framkvæma meira en aðrir. Forgangsröðun á þeim 24 tímum sem þú hefur til umráða eins og allir aðrir sker úr um það hvort þú sért að nálgast þau markmið sem þú hefur sett þér í lífinu. 

Tíminn er alltaf að verða búinn.
Tíminn er alltaf að verða búinn.

Mér finnst svo gaman að hitta fólk sem á fjölskyldu, er í vinnu, er í félagsstarfi en hefur samt tíma til að hitta mann í klukkutíma á kaffihúsi. Ég ber mikla virðingu fyrir slíku fólki. Það er gaman að vera í kringum fólk sem er að gera eitthvað við líf sitt en situr ekki heima hjá sér og eru atvinnu sófakartöflur. Hvort er skemmtilegra að hitta manneskju sem hefur alltaf frá einhverju nýju að segja; nýjum hugmyndum eða frá einhverju sem það var að upplifa eða hitta manneskju sem segir alltaf frá því sama því það gerist aldrei neitt nýtt nema í mesta lagi á 6 mánaða fresti? Ég allavega hef meira gaman að fyrri manneskjunni, en sem betur fer eru ekki allir eins og ég.

Bera virðingu fyrir tímanum

Berðu virðingu fyrir tímanum þínum og um leið tíma annarra. Nokkrar góðar venjur sem ég mæli með eru: mæta á réttum tíma, láta vita ef þú verður sein/n og hversu sein/n þú verður. Þetta eru venjur sem ég hef reynt að tileinka mér og gengur vel. Þegar ég var alltaf of sein, þá fór ég illa með minn eigin tíma og um leið hrillilega illa með tíma annarra. Mér líkaði það ekki og þess vegna breytti ég því.  

Bera virðingu fyrir tímanum

Með því að bera virðingu fyrir tíma annarra þá ertu að sýna viðkomandi virðingu. Að segjast ælta að mæta, en mæta svo ekki þá ertu að gefa viðkomandi merki um að þú berð enga virðingu fyrir þeirri manneskju eða hópi. Betra er að láta vita að maður sé seinn heldur en að láta einhvern bíða og bíða. Þegar einhver bíður eftir þér þá upplifir manneskjan höfnun. Eftir að þú ert mættur á staðinn fer stór hluti af tímanum í að byggja upp traust aftur, en ef þú lætur bara vita af þér þá sýnir þú að traustið er til staðar en það kom svolítið uppá.

Mín skoðun er sú að það er betra að afbóka sig heldur en að mæta ekki og afbóka sig með eins miklum fyrirvara og mögulegt er.

Já eða nei?

Myndir þú mæta of seint á fund með forsetanum?

En með ráðherra?

En á viðskiptafund þar sem milljóna samningur er í húfi?

Ef svarið er nei, þá ættiru ekki að mæta seint neins staðar annarsstaðar.

Sýndu sjálfum þér og öðrum virðingu.

 

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Tíminn… það sem allir eiga

  1. Bakvísun: Tíminn… það sem allir eiga – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.