Snillingar nærsamfélagsins

Alla vikuna er ég búin að vera velta því fyrir mér af hverju fólk verður að gríðarlega miklum snillingum eftir að það hefur fallið frá. Minningargreinar um fólk eru mjög fallegar og gaman að lesa um snjallt, duglegt og skemmtilegt fólk. Sorglegasta við minningargreinar er að manneskjan sem skrifað er um fær ekki að lesa greinina. Hin látni fær ekki að lesa hversu mörgum þótti gríðarlega vænt um viðkomandi og hversu mörgum fannst gaman að vera í kringum manneskjuna.

Í gær skrifaði Logi Geirsson grein um akkúrat þetta á Facebook síðu sinni. Ég hefði ekki getað orðað þetta betur sjálf, en þar skrifar hann minningargrein í stað þess að skrifa afmæliskveðju til föðurs síns. Ég er svo sammála Loga með að láta fólk vita hversu vænt manni þykir um það þegar menn eru lifandi. Rifja upp skemmtilegar minningar með fólki en ekki eftir að menn eru farnir. Tala vel um náungan þegar hann er viðstaddur í stað þess að segja frægðarsögur þegar menn eru farnir fyrir fullt og allt.

Logi sló mig örlítið út af laginu með þessari færslu sinni, því vikupistillinn minn var nánast það sama og hann var að skrifa um – en þar sem Logi er töluvert þekktari manneskja en ég þá er frábært að hann hafði orð á þessu. Lesendur á greinum eftir hann ná til fleiri heldur en pistlarnir mínar (allavega ennþá) 🙂  Ég vona að greinin hans Loga geri það að verkum að fólk byrji að hrósa hvort öðru núna en ekki einungis í minningargrein eftir að það er fallið frá.

Snillingar nærsamfélagsins eiga það skilið að vera hrósað fyrir það hvernig þeir eru. Þeir gefa lífinu og umhverfinu lit. Án allra þessara áberandi snillinga væri lífið leiðinlegt og innihaldslaust. Fögnum fjölbreytileikanum og hrósum hvort öðru.

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Snillingar nærsamfélagsins

  1. Bakvísun: Snillingar nærsamfélagsins – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.