Hver vil ég vera?

„Vá, hvað þetta er óspennandi fyrirsögn – hver er í þessum pælingum í desember??“ – hugsa eflaust margir þegar þeir sjá þessa fyrirsögn bregða fyrir í skrollinu niður Facebook.

„Ég er á fullu að baka sörur, setja upp jólaskraut, má ekki gleyma jóla- ballinu, -kortunum, -glögginu, -kökunum, -gjöfunum, -hittingunum og öllu hinu. Ég hef NÓG að gera! Og svo kemur einhver með yfirvegaða og óþolandi spurningu um það hver ég vilji vera?? Hver nennir svona pælingum og hver hefur tíma í þær, ég bara spyr???“ – segja þeir sömu.

Ég óska þér til hamingju með að vera ennþá að lesa, því það þýðir að þú hefur mögulega örlítinn áhuga á að spá í það hver þú sjálf/ur vilt vera. Ég fagna því.

Desember er fullkomin mánuður til þess að svara þessari spurningu. Vegna þess að nýtt ár er handan við hornið og þú getur ákveðið að þau tímamót verði upphafið af einhverju nýju í þínu lífi. Hins vegar verður ekkert nýtt upphaf ef þú ætlar bara að hugsa aðeins um það – þú þarft að skrifa það niður (eða teikna, helst bæði). Með því að hunsa þann mikilvæga part, þá kemur bara nýtt ár eins og gerist á hverju ári, en það verður ekkert nýtt upphaf hjá þér sjálfum.

Hver viltu vera?

Kauptu þér dagbók í dag!

Ég mæli með að þú kaupir þér dagbók í dag. Skrifaðu aftast í dagbókina:

  • Nokkur markmið fyrir árið.
  • Nokkra drauma sem væri gaman að myndu rætast.
  • Skrifaðu niður þá tilfinningu sem þú hefur fyrir árið.
  • Það er líka sniðugt að skrifa niður núverandi peningastöðuna sína, skuldastöðu og eignastöðu.
  • Hver er sambandsstaða þín og hvaða tilfinningu hefur þú fyrir henni?
  • Leyfðu nokkrum tilfinningum að fljóta með.
  • Skrifaðu niður hvernig núverandi ár hefur verið og hvernig þú sérð fyrir þér komandi ár.

Þegar næsta ár verður liðið, þá verður þetta til staðar til þess að geta borið saman hvar þú varst í byrjun ársins og hvernig allt hefur breyst.

Gefðu þér tíma í þig.

-Elín Kára-

Sniðugir pistlar: Ég týndi markmiðinuForgangsmál - mitt eigið planLífið flækist fyrir mér

Ein athugasemd við “Hver vil ég vera?

  1. Bakvísun: Hver vil ég vera? – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.