Ég elska að búa út á landi

Já, mér finnst gott að búa út á landi. Ég er alin upp út á landi sem barn, flutti svo í höfuðborgina til að fara í háskóla og bjó í Reykjavík í nokkur ár. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa alist upp út á landi þegar ég var barn, sömuleiðis er ég mjög þakklát fyrir að hafa tekið ákvörðun um að búa í Reykjavík í nokkur ár.

Mitt er valið – ég vel landsbyggðina frekar

Það eru bæði kostir og gallar við landsbyggðina, alveg eins og með höfuðborgina. Ég er svo lánsöm að hafa val þegar kemur að búsetu. Ég og Siggi, sambýlismaður minn ákváðum það að flytja út á land og búa þar til framtíðar, ala okkar börn upp þar og eiga gott líf, út á landi.

Mig langar til að fara stuttlega fyrir nokkra kosti þess að búa út á landi:

  • Miklu minni streita
  • Stutt í flestar nauðsynjar.
  • Maður greinir betur frá því hvað er þörf og svo gerfiþörf.
  • Maður græðir tíma – út á landi fer minni tími í að sitja í bíl og koma sér á milli staða.
  • Maður skiptir máli. Það skiptir máli hvort þú mætir á bæjarskemmtanir eða eitthvað annað sem er í gangi í bæjarfélaginu þínu. Hver og einn skiptir meira máli.
  • Fólk heilsar manni (fer reyndar eftir bæjarfélögum, sum eru opnari en önnur).
  • Meiri gæði á lægra verði; fasteignaverð, tryggingar, notar minna bílinn, o.m.fl.
  • Starfsfólkið á helstu stöðum sem þú mætir á fer fljótlega að þekkja þig.
  • Auðveldara að verða partur af einhverju félagsstarfi. Þú verður fljótt stór hlekkur í samfélaginu.
  • Stutt út í náttúruna.

Þetta ásamt svo mörgu öðru eru kostir þess að búa út á landi í stað þess að búa í höfuðborginni. Auðvitað eru einhverjir ókostir við lítil samfélög út á landi, en mér finnst kostirnir vera fleiri.

Í mínu tilfelli þá bý ég í nálgæð við höfuðborgina, en ég þarf samt að gera mér ferð þangað. Ég er ekki partur af borginni, en get sótt þjónustuna sem þar er að finna frekar auðveldlega. Það væri óskandi að fleiri gætu nýtt sér höfuðborgina þannig með betri flugsamgöngum.

Umfram allt, þá finnst mér landsbyggðin heillandi staður til að búa á. Með auknum einfaldleika og minimalisma þá tel ég að fleiri átti sig á gæðum þess að búa út á landi í stað þess að búa í höfuðborginni.

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Ég elska að búa út á landi

  1. Bakvísun: Ég elska að búa út á landi – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.