Vatn, já takk.

Vatn er sérstakt áhugamál mitt. Ég hef vanið mig á að hafa nær alltaf með mér vatnsflösku í töskunni eða í bílnum. Ég drekk vatn allan daginn og hef margar ástæður fyrir því. Þær eru heilsunnar vegna og fjárhagslegar líka.

Ég fæ mér alveg gos eða ávaxtasafa annað slagið, en aldrei til að svala þorsta og ekki til að drekka í miklu magni. Heldur frekar eitthvað sem ég fæ mér einstaka sinnum (1 glas ca 1-2 í viku) til tilbreytingar.

Ég fór ekki að drekka vatn í einhverju átaki, heldur finnst mér cola drykkir vondir og mér finnst gos stinga mig í hálsinn. Svo hefur mér alltaf fundist vatn besti drykkurinn frá því ég man eftir mér 🙂

Grípum með okkur eitthvað að drekka

Ég skellti mér í sjoppu og keypti hálfan líter af Coke Zero og rauðum Kristal plús. Svo fór ég í lágvöruverslun og keypti sömu drykki. Meðalverð á drykk er ca 198 kr. miðað við að stundum sé keypt í sjoppu og stundum í lágvöruverlsun, sjá mynd.

Grípum með okkur eitthvað að drekka.
Grípum með okkur eitthvað að drekka 1x á dag.

Flestir eru að kaupa sér einhverskonar drykki þegar menn eru á ferðinni; í sjoppum, sjálfsölum eða matsalnum í vinnunni/skólanum. Þannig að verðið sem er borgað fyrir eina flösku á dag er iðulega hærra en 198kr. Margir drekka tvær flöskur á dag og sumir meira.

Horfðu aðeins á myndina og skoðaðu tölurnar. Gætir þú sem einstaklingur gert eitthvað við auka 70.000 kr. á ári? Ef um er að ræða par eða tvo einstaklinga þá er þetta 140.000 kr. á ári. Hvað gætir þú gert fyrir 140.000 kr. einn mánuðinn? Sumir vilja fá 13 mánuðinn borgaðan frá fyrirtækinu sem menn vinna hjá, hvernig væri að þú borgaðir þér mánuðinn sjálf/ur? Bara hugmynd…

Nú er ég ekki einu sinni búin að fara út í þá sálma hvað neysla þessara drykkja gerir líkamanum. Þú ert að drekka auka hitaeiningar sem fæstir hafa þörf fyrir. Svo er hægt að telja upp hluti sem þessir drykkir gera þér eða gera ekki fyrir þig. Ef þú hefur áhuga á slíku, þá ertu enga stund að finna slíkar upplýsingar hjá Google frænda.

Taka vatnsflösku með sér

Ég tek með mér vatnsflösku þegar ég fer á stúfana, sem ég get fyllt á nánast hvar sem er, aftur og aftur. Uppáhalds flöskurnar mínar eru vatnsflöskur frá Tupperware með smellutappa (ég hef engra hagsmuna að gæta að tala um vörumerkið, mér líkar bara vel við flöskurnar). Ég keypti flöskuna á 1680 kr. stk, en það eru oft allskonar tilboð á þessum flöskum. Miðað við þetta verð þá get ég keypt einn drykk á dag í viku í stað þess að kaupa eina vatnsflösku – ég vel frekar að kaupa flöskuna.

Smart vatnsflöskur.
Smart og þægilegar vatnsflöskur.

Kosturinn við flöskurnar er að plastið gefur ekki frá sér bragð í vatnið, þær má setja í uppþvottavél og smellutappinn er þægilegur. Svo eru þær mjög smart og skemmtilegir litir í boði.

Hægt er að fá ódýrari flöskur og líka dýrari. Flestar íþróttaverslanir selja flotta og þægilega brúsa/flöskur. Mér finnst lykilatriði að vatnsflaskan mín leki ekki, að hún sé falleg, þægileg að opna og drekka úr henni.

Vatn er nauðsynlegt lífs…

Staðreynd dagsins: vatn er ástæða þess að líf er á jörðinni. Til er mannfólk í hinum vestræna heimi sem telur sig ekki þurfa vatn, eða segja að vatn sé “óspennandi”. Þetta er svo fráleitt. Líkaminn er 66% vatn og heilinn er 75% vatn* – þess vegna verður fólk að vökva sjálfan sig.

Á hverjum degi tapar venjuleg manneskja 2-2,5 lítrum af vatni í gegnum þvag, svita, hægðir og útöndun*. Það er því rík ástæða til þess að drekka að lágmarki sama magn af vatni á hverjum degi.

Náttúru- og líffræði kennari minn í grunnskóla sagði að það væri nauðsynlegt að byrja daginn á því að vökva líkamann með því að drekka 1 glasi af volgu vatni. Þetta var eitthvað sem ég tók til mín og hef reynt að byrja hvern dag á vatnsglasi frá því ég var krakki.

Of lítil vatnsneysla kemur út sem t.d. svimi, slappleiki, þreyta, höfuðverkur, lágur blóðþrýstingur, hraður hjartsláttur* og margt fleira. Fyrir mig eru þetta nægilega margar ástæður til að drekka nóg vatn á hverjum degi, allan daginn, alla daga. Ég hvet þig til að drekka vatn reglulega yfir daginn.

Vatn er ferskt og kostar ekkert á Íslandi – njótum þess!

Mæli með þessari grein fyrir meiri upplýsingar um vatn.

*http://www.heilsuhringurinn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=213:hvers-vegna-turfum-vie-ae-drekka-allt-tetta-vatn&catid=6:likaminn&Itemid=19

 

2 athugasemdir við “Vatn, já takk.

  1. Fjóla Kristjánsdóttir

    Minnir mig á þegar við fórum í húsmæðraorlofið.. Við allar drukkum vatnið frá þér hahaha 😀 😀

  2. Ragnar

    Frábær pistill var virkilega að fíla útreikningin á ári fyrir gos! Hvað ætli maður hafi eytt miklum pening í þetta + tannlæknir!(Allavega)
    Takk fyrir þetta

Lokað er á athugasemdir.