Sparnaðar tips

„Sparaðu eins og meistari“ auglýsa bankarnir. Sparnaður hjá einstaklingum er að aukast heyrist í fréttum. Svo  er allskonar skyldu sparnaður og ýmislegt fleira.

Mig langar til að deila með ykkur nokkrum sparnaðar tipsum sem hafa reynst mér og manninum mínum vel. Þetta eru ráð sem við höfum lært af bókum og fyrirlestrum hjá fólki sem er mjög vel efnað í dag, en byrjaði bara lítið og smátt. Það erfiðasta við að spara er að koma upp vananum og halda aga á sjálfum sér.

Þrjú lykilatriði

1. Varasjóður: Þetta er opin bankareikningur – best að hafa hann í öðrum banka en þú ert með debet og kreditkortið þitt. Þú ert ekki með greiðslukort tengt við þennan reikning. Varasjóðurinn er hugsaður til að dekka allan óvæntan kostnað, eins og t.d. viðgerð á bílnum. Ef vel á að vera ætti þessi sjóður að vera sem nemur þremur mánaðarlaunum. Þar sem þetta er varasjóður má þessi sjóður helst aldrei tæmast því það þýðir að enginn auka peningur er til að dekka óvæntan kostnað.

Í varasjóðinn er best að setja 10% eða meira af tekjunum þínum í upphafi hvers mánaðar. Fyrst af öllu leggur þú inn á varasjóðinn. Ef þú ert að leggja til hliðar í aðra sjóði, þá leggur þú hlutfallslega mest í þennan sjóð.

2. Draumasjóður: Þetta er læstur bankareikningur. Veldu það sem hentar þér hjá þínum banka – þeir bjóða uppá margar leiðir með mis háum vöxtum. Þú þarft að finna þinn draum og læsa þessum reikningi út frá draumnum.

Draumasjóðurinn er einmitt hugsaður til að fjármagna drauma. Þá er ekki verið að tala um draumaskó eða draumablómavasann heldur eitthvað stærra. Þessi sjóður getur þess vegna staðið óhreyfður í mörg ár ef draumurinn er dýr. Sniðugt að velja sér ákveðna krónutölu og leggja ALLTAF inn í hverjum mánuði. Eða búa sér til aðra reglu – t.d. geta aukatekjur heimilisins farið ósnert inná draumasjóðinn.

3. Annar sparnaður: Annar sparnaður getur verið að kaupa í hluta/skuldabréfasjóðum. Taka út úr hraðbanka ákveðna upphæð mánaðarlega og setja í umslag.

Þann pening sem þú ert með í „öðrum sparnaði“ má gera upp 1x á ári (þú ákveður tímasetningu). Það er sniðugt að taka þennan sparnað og setja hann inná draumasjóðinn eða greiða inná höfuðstól á láni.

Það er nauðsynlegt að spara á fleiri en einn veg ef þú vilt eignast sjóð.

Þetta krefst aga!

Margir detta í þann gír að spara í lok mánaðar. Ég var lengi í þeim gír. Þegar ég lærði að leggja til hliðar í sparnað í byrjun mánaðar fór mér að ganga töluvert betur.

Agi og þolinmæði eru lykilorð í því að byggja upp sparnað. Það er erfitt að byrja á 0,- kr. en þar þarf að byrja. Það sem gerist með tímanum, ef þú heldur aga og ert með þolinmæði að vopni – þá verða sjóðirnir stórir og það er ótrúlegt hvað það verður erfitt að ganga á sjóðinn eftir að hann verður stór. Þú vilt ekki sjá tölurnar lækka – bara hækka 🙂

Byrja alla mánuði á að spara með því að setja pening í hvern sjóð. Best er að leggja fyrir það háa upphæð að það reyni á þig að ganga ekki á varasjóðinn í lok mánaðarins. Ef þú nauðsynlega þarft pening í lok mánaðar þá sækir þú hann í varasjóðinn, EN aðeins það sem þú þarft. Með þessu móti verður alltaf einhver sparnaður eftir. Með tímanum þjálfastu upp í því að leggja þægilega en krefjandi upphæð til hliðar og þú þarft ekki að ganga á hana.

Svo þegar það er orðið auðvelt að leggja x upphæð til hliðar hækkar þú upphæðina 🙂

Reyndu að ganga ekkert á varasjóðinn í mánuðinum og reyndu líka að eiga afgang af því neyslufé sem þú skammtaðir þér í mánuðinum. Það er getur verið varasamt að klára alltaf launin sín í hverjum mánuði. Ef ekkert er til í varasjóð og t.d. bíllinn bilar þarf mögulega að taka yfirdrátt, smálán eða kreditkorta lán. Þau geta verið varasöm því það þarf að greiða af þeim mánaðarlega næstu mánuði og þá ertu með minna til ráðstöfunar af laununum þínum í hverjum mánuði.

Ef launin duga ekki mánuð eftir mánuð – þá þarf að skoða sjoppufærslurnar* sínar. Þá þarf að skoða lifnaðarhátt og þann standard sem þú hefur sett þér. Þá þarf að sjá hvort þú getir gert hlutina eitthvað öðruvísi. Og mögulega gæti minimalísk hugsun aðstoðað þig við að einfalda líf þitt og um leið eyðir þú ekki peningunum þínum í óþarfa.

Umfram allt, þá skaltu BYRJA!

– Elín Kára –

*Sjoppufærslur eru algjörlega óþörf útgjöld t.d. þegar maður verslar föt á útsölu bara vegna þess að það er útsala. Kemur við í sjoppu og kaupir eitthvað að borða en er ekki svangur. Þetta eru færslur sem verða til þegar manni leiðist og fyrir vikið fer maður og verslar sér eitthvað til afþreyingar.

Ég mæli með: Hver er staðan? fyrir fleiri fjármála tips.

Ein athugasemd við “Sparnaðar tips

  1. Bakvísun: Sparnaðar tips – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.