Vertu svolítið sjálfselsk!

Elín Kára
Elín Kára

Ég skil ekki af hverju sjálfselska er alltaf sett í neikvæða merkingu. Mér finnst vanta töluverða sjálfselsku í fólk – við þurfum að elska okkur sjálf miklu meira. Það fer eiginlega í taugarnar á mér að orðið sjálfselska er alltaf sagt með neikvæðum tón og börn alin upp með þá neikvæðu merkingu – að það sé slæmt að vera sjálfselskur.

Svo verðum við stór og borgum stór fé fyrir allskonar námskeið sem kenna okkur að elska okkur sjálf.

Ég skil þetta ekki! Ég hreinlega næ ekki upp í þetta!

Meirihluti fólks ber ekki virðingu fyrir sjálfum sér – það ber meiri virðingu fyrir öðrum. Það er hópur af fólki sem eyðir öllu sínu lífi í að reyna að vera einhver annar en það er sjálft. Er alltaf að reyna að vera ljósritið af einhverjum öðrum í stað þess að vera bara frumritið af sjálfum sér. Reyna alltaf að vera í sömu fötunum og aðrir, eiga sömu hlutina og aðrir, tala um sömu hlutina og aðrir. Leggja mikla orku og peninga í að rembast við að vera eins og einhver annar – allt sitt líf.

Ég skil þetta ekki!

Ef fólk myndi í alvörunni elska sjálft sig þá myndi það ekki leyfa öðrum að koma illa fram við sig. Þá myndi fólk ekki borða mat og drekka drykki sem fer illa með líkamann þeirra. Og hreyfingarleysi væri ekki vandamál, því fólk myndi hreyfa sig ef það elskaði líkama sinn fyrir alvöru. (Fólk sem elskar hundana sína passar að þeir fái alltaf næga hreyfingu og næringu – en ekki endilega forgangsatriði með þeirra eigin líkama).

Ef fólk elskaði sjálft sig, þá myndi það fara betur með sig í einu og öllu. Hvort sem það er samskipti við aðra, líkaminn þeirra eða bara hvað sem er.

-Elín Kára-

Ein athugasemd við “Vertu svolítið sjálfselsk!

  1. Bakvísun: Vertu svolítið sjálfselsk! – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.