Stundum er lífið fyrir mér og ég næ ekki að gera þá hluti sem ég ætla að gera, allt útaf því að lífið er fyrir mér. Margir kannast við þetta í samhengi við svo margt sem við erum að taka okkur fyrir hendur.
Þegar ég var í skóla þá hafði ég kannski tvær vikur til að klára verkefni. Fyrsta vikan fór í að hugsa um verkefnið, svo tók nokkra daga að undirbúa verkefnið og svo á síðustu stundu var verkefnið gert. Iðulega hugsaði ég eftir að verkefnið var fullklárað (korter í skil), hversu gott það hefði verið að vera búin með verkefnið fyrir löngu og vera laus við stressið. Stundum náði ég að vinna verkefnin eftir því skipulagi sem ég setti í upphafi; gera lítið í einu, jafnt og þétt, þannig að ekkert stress myndast og fyrir vikið klárast verkefnið langt á undan áætlun.
Lífið er oft fyrir þeim sem ætla að taka sig á í ræktinni og matarræðinu. Þú ert með fullkomið plan, búin að skipuleggja hreyfinguna, matarræðið og þetta getur ekki klikkað. En svo flækist lífið fyrir þér. Þegar einhver spyr þig hvernig gangi í átakinu, þá hefur þú nokkrar mjög góðar og vel valdar afsakanir og þeim er teflt fram án þess að blikka auga. Ef þú myndir spurja sjálfa þig og svara mjög heiðarlega þá eru þessar afsakanir frekar lélegar og yfirheitið þeirra er í rauninni bara: ég leyfði lífinu að flækjast fyrir mér.
Ég lendi annað slagið í því að lífið er svo mikið fyrir mér að ég kem engu í verk í fleiri daga. Ég ætlaði að hringja símtal, ég ætlaði að borða holt, ég ætlaði að fara í gönguferð, ég ætlaði að heimsækja vinkonu mína, ég ætlaði, ég ætlaði, ég ætlaði. Ég ætlaði að vera löngu búin að skrifa pistilinn sem fer í loftið næsta mánudag – en lífið flæktist fyrir mér og ekkert gerðist.
Here´s the problem: every action that is easy to do, is also easy not to do. – The Slight Edge, p.36.
Hvað geri ég við “vandamálið”? Held áfram að láta lífið vera fyrir mér og kenna veðrinu, sjónvarps dagskránni eða þeim sem komu skyndilega í heimsókn um framkvæmdarleysi mitt? Nei, það er einum of auðvelt að velja sér slíkar afsakanir – ég hef ekki áhuga á að fara auðveldu leiðina. Ég vil hafa svolítið fyrir hlutunum og geta horft til baka með stolti.
Ég næ aftur fókus á verkefnin mín með því að skrifa þau niður. Nýti mér blað (eða tússtöflu) og penna til að skrifa niður verkefni dagsins og næstu daga. Fer beint í að klára litlu verkefnin í stað þess að horfa út um gluggann og láta veðrið eyðileggja fyrir mér daginn. Hlusta ekki á litla apann segja mér að labba í hringi og sannfæra mig í leiðinni um að það sé rosalega mikið að gera hjá mér en í raunveruleikanum er ekkert að gerast. Nei, það er betra að halda einbeitingunni og klára það sem var lagt upp með.
-Elín Káradóttir-