Engin Vísa krísa í janúar

Þú ert svo heppin! Heppin að lesa þennan pistil núna í byrjun október. Heppin að fá áminningu um það að jólin eru eftir 12 vikur. Heppin að geta byrjað strax að undirbúa ljósahátíðina. Heppin að í ár verður ekkert rugl hjá þér í kringum jólin.

Hvernig verða jólin í ár?

Hvernig viltu hafa jólin? Mér finnst gott að minna mig á, að jólin eiga að vera eftir mínu eigin höfði. Ekki eftir fyrirfram ákveðnum hefðum sem ég skil ekki og hef aldrei fengið útskýringu á. Eftir að hafa sett niður punkta um það hvernig ég vil hafa jólin, þá er ekkert til fyrirstöðu en að fara undirbúa þau strax í október til þess að það verði engin „vísa krísa“ í janúar.

Jólagjafalisti

 • Gerðu jólagjafalista og haltu þig við hann.
 • Settu verðstefnu. Hvað ætlar þú að eyða miklum pening í jólagjafir í ár?
 • Hverjum ætlar þú að gefa gjöf? Af hverju ertu að gefa þessum gjöf? Hvað ertu að gefa? Er þetta eitthvað sem fólk mun nota, njóta eða henda?
 • Hafðu sóun í huga. Jólagjafasóun er alveg jafn heimskuleg og matarsóun. Reynum að útrýma allri sóun. Sérstaklega peningasóun hjá sjálfum okkur.
 • Er hægt að kaupa eitthvað í október, eitthvað í nóvember og svo restin í desember?

Jólakortin

 • Viltu senda jólakort?
 • Hverjum ætlar þú að senda jólakort? Mér finnst gott að miða við að senda þeim jólakort sem þú hefur verið í mestum samskiptum við á árinu.
 • Hvað er að stoppa þig í því að græja þau í október eða nóvember? Og vera tilbúin til að senda þau í byrjun desember? Þú slepppur við röðina á pósthúsið 😉 nýttu tímann þinn vel.

Hvað eigum við að borða gott?

 • Gerðu matseðil fyrir jólin.
 • Líttu á dagatalið og skrifaðu niður plan um hvernig matarmálum verður háttað yfir hátíðisdagana.
 • Þarf að vera margréttað?
 • Hvernig viltu hafa þetta?
 • Það er ekki skylda að hafa rauðkál, grænar baunir eða sykraðar kartöflur (hver átti upphaflega hugmyndina af þeim?? Hverjum datt í hug að klína karamellu utan um kartöflur og hafa það í matinn?). Og það þarf ekki 8 smáköku sortir. Þetta þarf ekki – en þetta má ef ÞIG langar til þess.
 • Mundu – þú stjórnar hvað þú borðar á jólunum.

Það verður ekki saltaður hamborgarahryggur heim hjá mér. Af hverju? Nú vegna þess að puttarnir á mér túttna út og mér líður ekki vel af því. Finnst mér það gott? Já, mjög. En ég ætla að velja vellíðan yfir hátíðirnar frekar. Það eru nú einu sinni jólin, þá finnst mér betra að líða vel.

Höfum í huga…

Þú stjórnar jólunum þínum! Gerðu sjálfum þér greiða með því að glepjast ekki af fyrirfram gefnum staðalmyndum og hefðum um það hvernig jólin „eiga að vera“. Þessar hefðir og fyrirfram ákveðnar hugmyndir um jólin eru búnar til af markaðsöflum og allskonar fólki sem mun ekki borga jólareikninginn þinn. Vertu á undan – vertu með skipulagið á hreinu. Gerðu það sem ÞIG langar til að gera á jólunum, þetta eru nú einu sinni jólin.

„Ég hef ekki efni á jólunum“ segja sumir. Ertu ekki að meina að þú hefur ekki efni á þeirri ímynd sem þú hefur af jólnum? Ef svo er, þá skaltu hafa það sem markmið fyrir næstu jól, að vera komin á betri stað. Það er fáranlegt að hafa áhyggjur af jólunum ár eftir ár, og gera ekkert í málinu. Vertu með stefnu í þessum málum og farðu eftir henni.

Hvernig væri að njóta í desember? Njóta tónlistarinnar og vera í róliheitunum. Fyrir mér eru jólin gleðistund þar sem fjölskylda og vinir koma saman, spila og drekka góðan kaffibolla. Stress og streita eiga ekkert erindi inn í þennan fallega tíma sem jólin eru.

Ég ætla að læra á milli ára – hvað með þig?

-Elín Kára-

Ein athugasemd við “Engin Vísa krísa í janúar

 1. Bakvísun: Engin Vísa krísa í janúar – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.