Geri þetta seinna

Elín Kára

Ég er búin að skoða fjarþjálfun hjá ákveðnu fyrirtæki í smá tíma og mig langar svo til að kaupa mér pakka. En það er ekki alveg tíminn núna. Einu sinni taldi ég mér trú um að þetta væri ekki fyrir mig, einu sinni fannst mér betra að kaupa eitthvað svipað, bara annars staðar. Afsakirnar mínar fyrir því að kaupa ekki akkúrat af þessu fyrirtæki voru og eru óteljandi. En alltaf skoða ég heimasíðuna aftur og aftur. „Ah, ég á ekki pening núna“ var eitt sinn afsökun (hún hefur reyndar komið reglulega). Aftur kom „tíma-afsökunin“ en alltaf langaði mig rosalega mikið til að slá til og kaupa pakka hjá þessu fyrirtæki.

Svo rankaði ég við mér – liðin eru 6 ár síðan ég skoðaði heimasíðuna fyrst, 6 ár! Hvert fór tíminn? Og ég hef ekki ennþá slegið til. Er þetta ekki svolítil bilun?

Frestum þessu bara

Ég er búin að fresta litlum draumi í 6 ár. Þegar ég fattaði hvað það var liðin langur tími, þá hugsaði ég með mér hversu lengi mun ég fresta mínum draumum? Þegar ég hlusta á eldra fólk (fólk sem er eldra en ég almennt) þá heyrist oft í tali þeirra ákveðin vonbrigði út í sjálfan sig með það hversu mikið þau hafa frestað hlutum. Sumir taka ábyrgð á sjálfum sér og taka ákvörðun um að bæta úr því. Aðrir finna sökudólga, kenna öðrum um og ætla sér ekki að gera neitt í málinu – „svona er þetta bara“.

Skólafólk er mjög oft í frestunarbransanum. Ósjaldan sér maður myndir af kaffibolla á samfélagsmiðlum frá námsmönnum með frestunarskilaboðum: „ætti að vera læra, en bara einn fyrst“. Normið í þessu samfélagi er að fresta. Það þykir meira að segja svolítið „töff“ í háskóla að fresta alveg fram á síðustu stundu. Nýta svo stóran hluta af tímanum í að tala mikið um það hvað þú ert á síðustu stundu. Fyrir vikið fær fólk neikvæða athygli eða klappið og peppið um að „þú getir þetta“.

Af hverju erum við alltaf á síðustu stundu? Frestun á öllu, hvort sem það er borga reikninga, klára verkefni eða leggja af stað í vinnuna, býr til auka stress. Við búum nú þegar í streitu miklu umhverfi og það er lítið mál að minnka stressið hjá okkur sjálfum með því að klára hlutina á réttum tíma.

Stressandi jólamánuður

Fyrir mörgum er Desember stressandi mánuður. Ég finn ekki fyrir þessu stress, þrátt fyrir að vera í stærra hús en áður, komin með barn og er að fara halda jólin „sjálf“. Desember kemur alltaf á eftir Nóvember, svo það kom mér ekkert á óvart þegar skjárinn á símanum mínum sýndi mér 1. des síðasta fimmtudag.

Þess vegna erum við Siggi búin að græja jólakortin, kaupa og pakka inn jólagjöfunum. Ákveða hvað á að vera í jólamatinn og hvernig allt á að vera því tengdu. Við erum búin að þurrka úr eldhúsinnréttingunni og sópa undan stofu sófanum.

Fyrir mér er Desember rólegur mánuður þar sem ég drekk kakó, fæ gesti og hef það notalegt með fjölskyldunni. Það eru 19 dagar til jóla, ætlar þú að fresta einhverju sem þú gætir alveg eins klárað í dag eða í þessari viku?

Þó ég hafi frestað fjárþjálfuninni í 6 ár, þá geri ég mitt besta til að hafa stresslaust líf. En þú?

 

-Elín Kárad-

 

Ein athugasemd við “Geri þetta seinna

  1. Bakvísun: Geri þetta seinna – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.