Hver er þín saga?

Elín Káradóttir
Elín Káradóttir

Framkvæmd er það sem skrifar söguna okkar, þjóðarssöguna og heimssöguna. Hugsaðu þér hversu litlaust lífið væri ef enginn myndi semja leikverk, tónlist eða gera skandal.

Hvaða sögu vilt þú skrifa?

Hvað ef Halldór Laxness hefði aldrei þorað að gefa út sína fyrstu bók? Hvað ef Andri Snær hefði ákveðið að vera ekki að trufla almenning með hugmynd sinni af Bláa hnettinum. Hvað ef sá sem fékk hugmyndina af Menningarnótt hefði hugsað: æji hvað ætli fólk nenni að standa í þessu – þetta er of flókið í framkvæmd.

Ef enginn framkvæmdir hugmyndir sínar, þá gerist ekkert og litlaus saga verður skrifuð í framhaldinu (ef einhver nennir að skrifa hana). Enginn hefur neitt til að tala um og lífið verður að engu. Ég er svo þakklát fyrir fólk sem er til í að taka þátt og gera eitthvað – fólk sem er tilbúið til að skrifa söguna. Þetta er fólkið sem setur viðmiðin og verða fyrirmyndir framtíðarinnar.

Þú gætir hugsað þig í kaf!

Það er ekki nóg að hugsa bara um hlutina. Þú þarft að framkvæma til að eitthvað verði að raunveruleika. Ég viðurkenni alveg að ég hef á köflum hugsað mig í kaf og þá fjarlægist ég framkvæmdarkraftinn. Auðvitað verðum við að forgangsraða tímanum okkar og setja upp hvað er mikilvægast að okkar mati. En umfram allt þá skiptir nánast engu máli hvað þú ert alltaf að hugsa um, það skiptir máli hvað þú gerir.

Þú þarft að vinna æfingarplanið en ekki bara hugsa um líkamsræktina.

Þú þarft að fara út með ruslið ef það á ekki allt að vera í drasli heima hjá þér.

Þú þarft að klára heimaverkefnið til þess að læra eitthvað í skólanum og fá betri einkunn.

Þú þarft að hringja eða heimsækja fólk til að bæta tengsl og samskipti. Það er ekki nóg að senda fólki fullt af hugskeytum sem komast ekki til skila.

Hafðu líf þitt spennandi – hættu að ofhugsa og framkvæmdu.

-Elín Káradóttir-