Oh, ef ég hefði bara…

…lagt til hliðar strax þegar ég var unglingur.

…byrjað að hreyfa mig strax eftir síðustu jól.

…þorað að segja „hæ“ við strákinn/stelpuna.

…sleppt því að segja það sem særði tilfinningar annarra.

…drukkið minna áfengi.

…lagt meira á mig til að eignast húsið mitt.

…verið aðeins gáfulegri.

…_______________________.

Margt fullorðið fólk er umvafið eftirsjá og eltir hún marga alveg til elliáranna. Ég hef gaman að því að setjast niður með öldruðu fólki og heyra sögurnar þeirra. Ég get alltaf tekið einhvern punkt úr þeim og lært af þeirra mistökum – því þau vilja deila sínum sögum til þess að maður upplifi ekki það sama. Lífið gengur í hringi og ég tek eftir því að vandamálin eru alltaf þau sömu, það eina sem breytist eru persónur og samskiptatækin sem notuð er hverju sinni.

Þessar setningar hér fyrir ofan heyrast frá fólki sem hefur ekki einu sinni náð miðjum aldri, jafnvel fólki sem er ekki orðið þrítugt. Hvernig væri að labba upp að næsta spegli og anda á hann. Ef það kemur móða þá ertu lifandi manneskja.

Byrjaðu þá að breyta núna!

Byrjaðu núna að hreyfa þig. Byrjaðu núna að leggja til hliðar í sparnað. Byrjaðu núna að ritskoða hvernig þú eyðir peningunum þínum. Byrjaðu núna á því að rækta betri samskipti við makan, vini og fjölskyldu.

Byrjaðu núna, í stað þess að lifa í eftirsjá.

-Elín Káradóttir-