Kraftur jákvæðrar hugsunar

Fjöldinn allur af bókum hafa verið gefnar út og fyrirlestrar haldnir um kosti og kraft þess að hugsa jákvætt. „Jákvætt hugarfar kemur þér lengra“ er megin inntak þessarar heimasíðu. Það hefur oft sannað sig að þeir sem hugsa jákvætt fara lengra á þeirri braut sem menn hafa valið sér.

Nærtæk dæmi um þetta er árangur íslenska fótboltaliðsins. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þeir fóru ekki svona langt á neikvæðum hugsunum um sjálfan sig, liðið, þjálfarana eða landið. Það skín í gegn svakaleg samstaða, jákvæð hugsunum gagnvart öllum í liðinu og þeim sem starfa í kringum liðið. Ekki síður jákvæð hugsun gagnvart áhorfendum og þjóðinni allri. Já, jákvæð hugsun, bros og gleði kemur okkur öllum lengra.

Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjabær

Annað dæmi um kraft þess að hugsa jákvætt það er sú uppbygging sem átti sér stað eftir eldgosið í Vestmannaeyjum. Eftir að hafa farið í Eldheima og kynnt mér sögu eldgosins í eyjum, þá sá ég strax að jákvæð hugsun og þvílíkur eldmóður í fólki hefur orðið til þess að byggð þar hefur ekki lagst af.

Ætli það hafi verið einhverjir sem sögðu „þetta er ekki hægt“ eða „þetta er búið spil og þú getur gleymt þessu“? Auðvitað eru einhverjir sem velja sér að þrælast í gegnum lífið í slíkum hugsunum en þeir sem velja sér slíkan hugsunarhátt eru ekki þeir sem byggja eitthvað upp til framtíðar. Í Vestmannaeyjum var fólk sem leit á björtu hliðarnar og sáu tækifærin eftir að eldgosinu lauk. Fólk sem talaði upp samfélgið sitt og fannst ekkert ómögulegt. Það er líka fólkið sem byggði upp eyjuna og leyfði ekki neikvæðninni að drepa allt niður.

Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar

Hver ert þú? Ert þú sá sem rífur niður eða byggir upp allt í kringum þig? Við getum ekki breytt samfélaginu, við getum einungis breytt okkur sjálfum og þannig gæti samfélagið breyst í kjölfarið. Ég, þú og við getum lagt okkar að mörkum til að vera jákvæð gagnvart okkar nærumhverfi – gagnvart fólkinu sem við umgöngumst daglega. Aðstoðum hvort annað við að ná lengra með jákvæðri hvatningu.

-Elín Káradóttir-

 

Ein athugasemd við “Kraftur jákvæðrar hugsunar

  1. Bakvísun: Kraftur jákvæðrar hugsunar – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.