Fangelsið: Álit annarra

Í þessu fangelsi, sem ber heitið “álit annarra” ert þú fangi, fangavörður og fangelsismálastjóri. Skrítin staða ekki satt? Þessi staða er samt raunveruleikinn hjá mjög mörgum.

Ég velti því fyrir mér af hverju maður er í þessu fangelsi, því ef ég er bæði fangavörðurinn og fangelsismálastjórinn – af hverju hleypi ég sjálfri mér ekki bara út? Þetta getur ekki verið flókið!

Að vera fangi í sínum eigin haus vegna hræðslu við áliti annarra er slæmur staður til að vera á. Sumir viðurkenna að þeir séu fangar á meðan aðrir fjölga fangavörðunum hjá sér og vilja ekkert í þessu gera. Verst finnst mér þegar ungt fólk er snemma komið í þetta fangelsi og hleypir sér ekki út á fullorðins árum. Mér finnst sorglegt að sjá mjög unga krakka velta því fyrir sér skoðunum annarra og byrja strax að takmarka líf sitt og drauma.

Álit annarra

Hverjir eru þessir „aðrir“?

Álit annarra snertir mismunandi við fólki, sumir hafa mikið vægi á meðan aðrir skipta mann nákvæmlega engu máli. Dæmi um þetta „fólk“ er: fjölskylda, vinir, ættingar, skólafélagar, vinnufélagar, fólk sem þú lítur upp til og  fólk sem veit ekki hver þú ert

The most powerful change, is to change the words in your head

– Kim Kiyosaki.

Ég kýs að kalla þetta fangelsi. Hugsanir þínar, langanir og draumar eru fangar í þínu eigin höfði. Ertu að leyfa öðrum að hafa áhrif á hvað þú tekur þér fyrir hendur?

Af hverju hættir þú í þessu?

Vegna þess að ___________ sagði að þetta væri asnalegt.

___________ sagði að ég myndi aldrei ná árangri í „þessu“.

Æji, ________ sagði að ég ætti ekki að vera eyða tímanum mínum í vitleysu.

________ sagði að ég ætti að finna mér „eitthvað annað“ að gera.

Allt eru þetta svör sem ég hef heyrt frá fólki sem hætti að elta draumana sína. Þetta er fólk úr öllum áttum, fólk sem ætlaði ….

…að taka sig á í matarræði.

….að stofna sprotafyrirtæki

…að byrja hreyfa sig.

…að byrja nýjan eða taka við rekstri.

…að fara í heimsreisu.

…í listnám, íslensku eða mannfræði frekar en lögfræði, verkfræði eða lækninn.

Hlustaðu aldrei á þann sem reynir að telja þér trú um að þér takist ekki eitthvað. Ekki einu sinni á mig. Ef þú átt þér draum skaltu hlúa að honum. Ef fólk getur ekki gert eitthvað sjálft mun það reyna að telja þér trú um að þú getir það ekki heldur. Ef þú vilt eitthvað, þá skaltu fara og sækja það. Einfalt og klárt. Skilurðu?

– Chris Gardner (Will Smith) við soninn Christopher í kvikmyndinni In Pursuit of Happiness.

Hvert værir þú komin ef þú hefðir ekki hætt? 

Kom þessi manneskja með eitthvað betra í staðinn? Eða getur verið að hún hafi bara verið að rífa þig niður, þar sem hún þorir ekki að takast á við sín verkefni og sína drauma? Hvert værir þú komin ef þú værir ekki að spá í það hvað öðrum finnst um hugmyndirnar þínar, hæfileikana eða draumana? 

Ég vona innilega að sá sem leyfir sér að tala niður til þín, borgi reikninganna þína um hver mánaðarmót og aðstoði þig af einlægni við að finna „eitthvað annað betra“.

Nú er kominn tími til að hleypa fanganum út!

-Elín Kára-

Ein athugasemd við “Fangelsið: Álit annarra

  1. Bakvísun: Fangelsið: Álit annarra – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.