Litli apinn sem stjórnar stundum

Ég rökræði oft við lítinn apa sem er ekkert sérstaklega gáfulegur og nausynlegt er að ræða við hann annað slagið á alvarlegu nótunum. Litli apinn tekur stundum völdin, það er þegar ég hugsa ekki áður en ég framkvæmi og fer í gegnum daginn án þess að taka eftir því.

Hversu góð hugmynd er að fá sér ís til að drepa tímann?
Hversu góð hugmynd er að fá sér ís til að drepa tímann?

Um daginn rökræddi ég mikið og harkalega við litla apann. Ég hreinlega skammaði hann nokkrum sinnum yfir daginn. Ég var á ferðinni um Reykjavíkurborg og þurfti að erindast. Ég var mjög tímanlega á ferðinni og átti að vera mætt á áfangastað eftir 20 mín. Hvað gerir maður á 20 mín í Reykjavík? Það fyrsta sem litla apanum datt í hug var að fara og kaupa ís, vegna þess að það var sól og gott veður. En ég var ekkert svöng og ég þurfti ekkert á ísnum að halda. Í stað þess að bruna í næstu ísbúð alveg meðvitundarlaus þá tók ég spjall við litla apann. Ég stoppaði á næsta bílaplani og ræddi kosti og galla þess að fara og fá mér ís. Ég vann þessar rökræður og engin ís var keyptur.

Eitt af því sem þurfti að gera í þessari ferð var að fara inn í verslunarmiðstöð, inn í ákveðna búð og kaupa eitt atriði. Þegar ég labbaði inn í verslunarmiðstöðina þá blöstu við mér girnilegir veitingastaðir en ég var nýbúin að borða. Litli apinn vildi fá sér eitthvað smotterí, því honum langaði svo mikið í eitthvað gott. Þá byrjuðu rökræðurnar enn eina ferðina.

Litli apinn sem vill oft stjórna.
Litli apinn sem vill oft stjórna.

Ég er nýbúin að borða – ég er ekki svöng. Það er ekkert hér sem heitir „aðeins“ því allir skammtar eru svo stórir. Þetta yrði klárlega „sjoppufærsla“ sem ég mun sjá eftir og fyrir vikið mjög tilgangslaus eyðsla á peningum. Svona labbaði ég og rökræddi við litla apann í gegnum alla verslunarmiðstöðina. Keypti þennan eina hlut og svo út aftur ÁN þess að kaupa nokkuð annað. Þetta var afrek. Þegar ég var komin út í bíl tók ég litla apann á teppið og krafðist svara við því hvers konar hegðun þetta væri. Litli apinn hafði engin svör. Ég hins vegar saknaði einskis sem var þarna inni, hafði enga löngun í neitt lengur og leið mjög vel.

Suma daga lætur litli apinn heyra í sér og er nánast stjórnlaus. Aðra daga lætur hann mig í friði og oft eigum við gott samstarf sem við höfum ákveðið að kalla – hin gullni meðalvegur Elínar og litla apans.

-Elín Káradóttir-