Segja alltaf: Já

Hefur þú talið það hversu oft þú segir “já” yfir daginn? Og hversu oft þú segir “nei”? Einhvers staðar heyrði ég þess getið að barn heyrir orðið “nei” 7x oftar en orðið “já”. Ef eitthvað er til í því þá skil ég vel hvers vegna við þurfum virkilega að hafa fyrir því að vera jákvæð yfir daginn. Þú segir ekki oft „já“ ef þú heyrir miklu oftar orðið „nei“.

Sumir þola ekki jákvæðni. Segja að maður hagi sér eins og fífl, sé á bleiku skýi og skilji ekki raunveruleikan – allt bara vegna þess að maður er jákvæður og talar um jákvæðu punktana í stað þess að einblína á þá neikvæðu allan daginn.

Ég vil meina að ég geti tekið hlutunum alvarlega og er í góðum takti við raunveruleikan þrátt fyrir að velja mér það að horfa í jákvæðu punktana við lífið.

Ræða það neikvæða

Stundum erum við ósátt og þurfum að losa aðeins út um einhverja hluti. Ég reyni samt að sjá eitthvað jákvætt í hlutunum og svo horfa á restina sem verkefni. Ég er að reyna að nota þetta hugarfar og það gengur vel hjá mér, þó ég þurfi alltaf að minna mig á annað slagið.

Ég er þeirrar skoðunar að ef þú eyðir endalausum tíma í að einblína á það neikvæða þá skerðir þú sjálf/ur lífsgæði þín. Ef þú byrjar allar umræður á einhverju neikvæðu, talar um eitthvað sem er að og að hinir og þessir séu ómöguleigir, þá leiðir það til þess að með tímanum nennir fólk ekki að umgangast þig

Leggja sitt af mörkum

Ég bið ekki um jákvætt umhverfi með því að vera sjálf neikvæð. Ef við viljum hafa bjart og jákvætt umhverfi í kringum okkur þá þarf maður að byrja á sjálfum sér og leggja sitt af mörkum. Ég geri það með því að labba inn í vinnudaginn með bros á vör og bjóða góðan dag. Koma heim eftir daginn og segja frá einhverju skemmtilegu eða jákvæðu. Tek á móti makanum með brosi og segi eitthvað fallegt. Brosi til afgreiðslufólks og hrósa því eða bíð því að eiga góðan dag. Svo reyni ég að hafa einungis jákvæða statusa á Facebook.

Byrjum á sjálfum okkur.

Ég skora á þig að segja oftar “já” og finndu hvað það er góð tilfinning 🙂 Prófaðu að vera opnari. Sjáðu hvort lífið taki einhverjum breytingum ef þú hugsar jákvætt, segir frá jákvæðu punktunum fyrst og ert brosandi yfir daginn. Ég þarf sjálf að taka mig á í að vera brosandi yfir daginn og það er alltaf að ganga betur hjá mér 🙂 mér líður allavega betur þegar ég brosi. 

Jákvætt EN smá neikvætt með

“Þetta er alveg frábært EN sósan var aðeins of þykk”.

“Veðrið var frábært, sól og blíða EN smá ský á himninum”.

“Sumarfríið var skemmtileg, við vorum saman og lékum okkur mikið EN það komu tveir rigningardagar og þá vorum við inni að spila.  

Þarf að nefna þetta “en”? Má ekki bara nefna það sem var vel gert eða skemmtilegt? Er sá sem við erum að tala við einhverju bættari með að heyra þetta EN?

Breytum til

Ef þú ert ekki sátt með lífið þitt, fjárhagsstöðu eða sambönd þín við annað fólk – prófaðu að vera jákvæðari til lengri tíma og sjáðu hvað gerist. Ný og skemmtileg tækifæri gætu bankað uppá, áhugavert fólk gæti komið inn í líf þitt. Með þessu tvennu er líklegt að fjárhagsstaða þín breytist til hins betra. Oft helst þetta fast í hendur.

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Segja alltaf: Já

  1. Bakvísun: Já, jájá, jáhá, jess, jeeh. – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.