Forgangsmál: mitt eigið plan.

Elín Kára
Elín Kára

Hvernig væri að setja sér markmið fyrir vikuna?

Fyrirtæki sem eru rekin af einhverju viti halda reglulega fundi til að skoða stöðuna og setja sér markmið. Fyrirtæki sem „bara halda áfram“ með enga stefnu, enga framtíðarsýn og ekkert markmið fara ekki langt. Einstaklingurinn gerir það ekki heldur.

Í vinnunni tökum við stöðuna og setjum okkur markmið til að koma okkur og fyrirtækinu lengra (og fyrirtækið er í fæstum tilfellum í okkar eigu). Flestir gera þetta mjög vel í vinnunni en nánast aldrei fyrir sjálfan sig né heimilið. Þjálfarar eru mjög góðir í því að koma með plan um hvernig á að vinna deildina, halda saman liðinu og koma því í gegnum erfiðleika, en gera það ekki fyrir sjálfan sig.

Er ekki skrýtið að við vinnum betur fyrir aðra heldur en okkur sjálf? Við eigum okkur sjálf, af hverju setjum við þá persónuleg markmið til hliðar og leyfum okkur að hugsa „æj, ég geri þetta seinna“. Margir hafa meiri metnað fyrir öllu öðru en að koma sjálfum sér á betri stað.

Vikulega – hver er staðan?

Ég var alltaf að taka stöðuna á mér vikulega. Renndi stuttlega yfir hver staðan væri hjá mér; fjárhagur, heilsa, fjölskylda og framtíðarsýn. Það er með þetta eins og svo margt annað, gekk vel í nokkra mánuði. Svo þurfti að koma upp nýrri rútínu því nýjar aðstæður komu upp og einhverra hluta vegna fékk þetta að víkja. Einmitt það sem síst hefði átt að detta niður þegar ný rútína var að byrja.

Veldu þér vin til að taka stöðuna með þér vikulega. Eins og hjá fyrirtækjum þá er gott að taka stöðuna með einhverjum og segja markmiðin sín upphátt. Þú ert ekki að fara ráðleggja vini þínum neitt, því í þetta skiptið ert þú sérfræðingur í sjálfum þér. Vinurinn er bara til þess að hlusta.

Dæmi um hversdagsleg vikuleg markmið.

  • Taka til á skrifborðinu.
  • Þrífa pottaskápinn.
  • Skila verkefninu í skólanum/vinnunni.
  • Hengja upp, laga til eða græja það sem hefur beðið lengi.
  • Hringja í einhvern nákomin.
  • Bjóða vinum í heimsókn (ekki bara bíða eftir boði frá þeim).
  • Taka kvittun fyrir öllu í eina viku.
  • Ná 5.000, 10.000 eða 15.000 skrefum á dag.
  • Símalaus klukkutími á hverjum degi.

Listinn er síbreytilegur í hverri einustu viku. Skrifaðu eitthvað sem hentar þér. Og mundu að það eru öll þessi litlu „ómerkilegu“ skref sem koma okkur lengst þegar upp er staðið. Það er jafn auðvelt að taka þau eins og að gera það ekki – vertu sniðug/ur og taktu litlu skrefin.

-Elín Káradóttir-

 

Ein athugasemd við “Forgangsmál: mitt eigið plan.

  1. Bakvísun: Forgangsmál: mitt eigið plan. – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.