
Þegar ég var námsmaður þá vann ég á sumrin eins og flest allir gera á námsárunum sínum.
Ég man hvernig eitt sumarið leið hjá án þess að ég tæki eftir því og eftir stóð að ég vann ógeðslega mikið og skemmti mér aðeins með vinunum.
Sumarið þar á eftir var einhvern veginn allt öðruvísi. Þó svo að ég væri í nákvæmlega sömu vaktarútínu og árið áður, þá breytti ég hugarfari mínu til frídaganna. Ég gerði eitthvað nýtt og/eða öðruvísi alla daga sem ég átti frí. Þó svo að ég ætti bara tvo og svo þrjá daga í frí til skiptis, alveg eins og sumarið þar á undan þá varð þetta sumar framúrskarandi skemmtilegt.
Það sem breyttist var hvernig ég hugsaði um fríið mitt. Ég nýtti það í að framkvæma og á sama tíma rækta bæði líkama og sál. Ég fór í fjallgöngur, rúntaði um allt í stuttum dagsferðum eða gisti eina nótt. Ég gerði nákvæmlega það sem mig langaði til að gera. Þannig bjó ég til eftirminnilegt sumar sem var fullt af gleði og skemmtilegum minningum.
Læra að taka sér frí
Eftir námsárin tók alveg ný sumarrútína við. Ég þurfti að læra það alveg uppá nýtt hvernig ætti að hugsa sumarið. Fyrir mér er sumarið háanna tími. Á sumrin gerast hlutirnir og á sumrin eiga menn að vinna og vinna mjög mikið til þess að þéna sem mest fyrir veturinn. Svo er ég allt í einu komin í heilsársstarf og þarf að taka mér frí í marga daga í röð.
Og hvað í ósköpunum á ég að gera við allan þennan tíma??
Fyrsta sem ég hugsaði var: ætli ég geti ekki aðstoðað frænku mína í fyrirtækinu hennar… eða kannski vantar auka starfsmann í uppvask… En sem betur fer þá bankaði kærastinn minn í mig og benti mér á að ég væri að fara vinna í allan vetur; ég hefði gott af því að taka mér frí og gera eitthvað til þess að hlaða batteríin.
Hlaða batteríin
Hvernig hleður þú best batteríin. Ég segi fyrir sjálfa mig, þá finnst mér rosalega gott að hitta margt fólk, spjalla, hlægja og gera eitthvað skemmtilegt með fólki. Þannig hleð ég batteríin. Svo finnst mér líka rosalega gott að vera ein heima og taka til, skipuleggja og endurraða inná heimilinu. Eftir þetta tvennt er ég alveg endurnærð. Svo hef ég fundið fyrir því undanfarið að mér finnst gott að keyra og labba um fallega náttúru – það gefur mér mjög mikið.
Margir hlaða batteríin á sólarströnd, með því að fara erlendis eða á tónlistarhátið. Á meðan aðrir vilja vera í algjörum róliheitum heima hjá sér, sumir vilja sofa fram að hádegi alla daga og gera sem minnst allan daginn. Við erum ölll með okkar útgáfu af því hvernig okkur finnst best að hlaða batteríin.
Gerðu þitt sumar að þínu
Ég hvet þig til þess að horfa til baka á þetta sumar sem var að líða.
Hvernig var það?
Hugsar þú til baka með bros á vör?
Gerðir þú hluti sem þér fannst skemmtilegir?
Ertu með peningaáhyggjur eftir sumarfríið?
Hvað hefðir þú viljað gera öðruvísi?
Settu niður nokkra punkta fyrir næsta sumar, um það hvernig þú vilt eyða þínu sumarfríi. Til dæmis er sniðugt að finna sér ódýrari afþreyingu ef þú ert með peningaáhyggjur eftir þetta sumar. Veldu þér afþreyingu sem þig langar til að gera næsta sumar í stað þess að elta vinina eða stórfjölskylduna – þannig munt þú hugsa um sumarið með stóru brosi og gleði.
Gerðu næsta sumar að þínu – ég mæli með því af öllu hjarta. Eftir að ég fór að skipuleggja sumarfríið með kærastanum mínum þá höfum við verið miklu ánægðari þegar haustið byrjar. Við setjum niður nokkra punkta á vorin um hvað við viljum gera um sumarið og þannig búum við til „okkar besta sumar“. Ég er virkilega ánægð eftir sumarið sem er að líða, ég var að koma úr fæðingarorlofi, þannig að ég á mjög lítið sumarfrí inni. Þrátt fyrir það, þá höfum við náð að gera ýmislegt og ég geng inn í haustið með bros á vör 🙂
-Elín Káradóttir-
Bakvísun: Sumarfrí eftir þínum áhuga – Betri fréttir