Hvenær ætlar þú að hafa efni á því?

“Það skiptir engu máli hversu góð laun þú hefur, þú ert alltaf jafn peningalaus” sagði einn rólindis maður eitt sinn við stálpað barnið sitt. Þetta er að mörgu leiti áhugaverð setning. Einhverra hluta vegna telur fólk sig ekki hafa efni á hlutunum og eyðir löngum tíma í að bíða eftir að hafa efni á þeim síðar – en búa sér ekki til neitt plan um að eignast meiri pening og hafa efni á því sem það langar til að gera.

Nei, ég á ekki pening.

Mjög vel efnaður athafnamaður sagði eitt sinn að í hvert skipti sem þú segist ekki hafa efni á einhverju þá ertu að tapa. Þú ert að planta ákveðnu hugarfari sem gerir það að verkum að þú verður alltaf meira fátækari. Með því að segja upphátt að þú eigir ekki pening og hafir ekki efni á hinu og þessu, þá mun það að öllum líkindum ekki verða neitt öðruvísi nokkrum vikum, mánuðum eða árum síðar.

Hægt að setja þetta í samhengi við svo margt.

  • Sækja námskeið/ráðstefnur
  • Stofna fyrirtæki
  • Kaupa kort í ræktina
  • Ferðast
  • Borða hollt
  • Koma drauma hugmyndinni í framkvæmd
  • Taka ákvörðun um nánst hvað sem er

Svona er endalaust hægt að fresta öllu sem þér dettur í hug.

Ég spyr þig: hvenær heldur þú að þú hafir efni á hlutunum?

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar þú ert í menntaskóla. Þú þarft ekki að borga leigu eða annað slíkt þar sem þú býrð heima hjá foreldrum þínum. En sumarlaunin fara í föt, sjoppumat og djamm um helgar yfir allan veturinn.  Auðvitað áttu ekki pening.

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar þú ert komin í framhaldsnám, eins og t.d. háskóla. Þá þarftu að lifa á námslánum frá LÍN og ekki eru þau nú til að hrópa húrra fyrir (þó svo að þú fáir þér bjór nánast hverja helgi og pantir pizzu hjá Dominos af og til). Auðvitað áttu ekki pening.

Ég get þetta ekki, því ég á ekki pening.

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar þú ert nýkomin á atvinnumarkaðinn. Það er svo mikið um að vera hjá þér og þú lifir svolítið hratt. Kaupa þarf ný föt fyrir nýju vinnuna og það þýðir eina góða verslunarverð til Evrópu eða Bandaríkjanna með vinunum. Svo þarf að fá sér “nýjan” bíl til að líta betur út. Nú skal sko aldeilis tekið á því í ræktinni OG nýjasti síminn keyptur. Auðvitað áttu ekki pening.

Er veskið alltaf tómt?
Er veskið alltaf tómt?

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar þú ert að fara kaupa þína fyrstu íbúð. Útborgunin er svoleiðis upphæð að maður þarf að eiga ríka foreldra úr Garðabæ eða Seltjarnanesi til að geta þetta. Þú ert klárlega ekki ein/n af þeim – þú ert sko að gera þetta alveg sjálf/ur. Þannig að nú er bara endalaust sparað til þess að geta keypt íbúðina. “En ég ætla samt að skjótast til London með vinunum, fara á þjóðhátið og maður kíkir nú út á lífið um helgar – en ég er samt að spara”. Auðvitað áttu ekki peningin.

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar fyrsta barnið er væntanlegt í heiminn. Allt þetta barnadót kostar ekkert smáræði og samt ertu að fá helling lánað eða gefins. Það eru engin smá útgjöld framundan sem tengjast barninu og eftir að hafa skoðað hvað dagmömmur kosta þá sérðu að þú ert ekki að fara eyða neinum pening í sjálfan þig. Auðvitað áttu ekki pening.

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar barn númer tvö kemur í heiminn. Nei, auðvitað ekki, því þó svo að þú notir sumt aftur þá eru barnaútgjöldin orðin tvöföld. Hafa menn kynnt sér hvað það kostar að vera með tvö börn á leikskóla?? Auðvitað áttu ekki pening.

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar börnin eru orðin stærri. Kaupa barnaföt á Íslandi, fótboltamótin, fimleikarnir, skíðaferðin til Sviss, nýju hjólin, nýr iitala vasi, stærra hús, nýr sími fyrir börnin – þetta kostar allt. Auðvitað áttu ekki pening.

Róleg, heldur þú að ég hafi efni á því??

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar börnin eru farin í menntó. Þú vilt styðja við bakið á þeim, svo þetta verði þeim ekki erfitt og þau eiga að einbeita sér að náminu. Svo þegar þau fá bílpróf þá erum við með samkomulag um að þau fá bíl ef þau byrja ekki að drekka – og barnið mitt stendur sko klárlega við það. Auðvitað áttu ekki pening.

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar þú ert að verða amma eða afi. Þig langar til að hjálpa til og gefa þessum litlu krílum allt mögulegt. „Þar sem ég gat ekki sjálf/ur keypt barnavagn, þá ætla ég sko að gefa mínum börnum barnavagn til þess að létta undir hjá þeim“. Auðvitað áttu ekki pening.

Þú hefur ekki efni á hlutunum þegar þú ert komin á ellilífeyri. “Er þetta eitthvað djók? Maður er búin að vinna hérna alla sína tíð og svo fær maður minna en helminginn af því sem maður var vanur að þéna – hvurslags lífeyriskerfi er þetta sem maður býr við hér á þesu landi?” Auðvitað áttu ekki pening.

Hvenær heldur þú að þú hafir efni á hlutunum?

Gæti verið gott að vera með reglulegan sparnað? Væri sniðugt að taka til í fjármálunum og forgangsraða upp á nýtt? Gæti verið sniðugt að vera með plan sem felur í sér að auka tekjurnar samhliða dagvinnu?  Vilt þú geta leyft þér ýmsa hluti og lifa innihaldsríku lífi? Ég er allavega til í það.

Í dag er ég að gera þetta allt með góðum árangri. Ég hvet þig til að vera með opin augun fyrir því líka, helst öllu.