Ein setning getur breytt lífi

Það þarf bara eina setningu til þess að breyta lífi, á jákvæðan og neikvæðan hátt. Oft heyrir maður sögur af fólki sem var lagt í andlegt einelti í æsku eða eftir að það er orðið fullorðið. Þar eru orð og setningar að breyta lífi á neikvæðan hátt. Sem er mjög sorglegt og minnir mann alltaf á að orð geta sært. Maður þarf að velja orðin sín vel og vera tilbúin til að taka ábyrgð á því sem maður segir. Ég hef oft gert þau mistök að segja eitthvað sem ég hefði betur sleppt því að segja. Ég hef reynt eins og ég get að læra af mínum mistökum og er allt af reyna velja orðin mín betur.

Svo er hin hliðin – orð og setningar get haft jákvæð og framúrskarandi áhrif á fólk. Þannig áhrif að líf þeirra breytist til hins betra til framtíðar.

Ein góð setning getur breytt hugsun hjá manni og getur gert það að verkum að þú byrjar að hugsa hlutina uppá nýtt. Í kjölfarið fer manni að ganga betur og árangur fer að verða sýnilegur.

En stundum þarf maður að melta góðar setningar í marga mánuði og jafnvel ár til þess að raunverulega skilja þær og leyfa þeim að hafa góð áhrif á sig.

„Elín, þetta er bara ákvörðun sem ég tók“

– sagði fjögra barna móðir við mig fyrir ca þremur árum síðan. Hún sagði þetta við mig þegar ég hrósaði hennar fyrir hvað hún væri í góðu formi, þrátt fyrir að vera búin að eiga fjögur börn (ég átti ekki barn á þessum tíma sjálf og hélt í fávisku minni að allar fjögra barna mæður ættu að vera með góða bumbu á sér). Þá sagði hún þessa snilldar setningu við mig: „Elín, þetta er bara ákvörðun sem ég tók“. 

Já, alveg þremur árum síðar, einni meðgöngu og vel yfir -10 kg síðar – þá virkilega skil ég þessa setningu og ég er henni hjartanlega sammála. Þetta er bara ákvörðun sem maður þarf að taka.

Á hvaða sviði í lífinu þarft þú að taka ákvörðun?

-Elín Káradóttir-