Uppfæra hausinn

Ný uppfærsla komin í símann þinn eða tölvuna. Þú lætur uppfærsluna að sjálfsögðu fara í gegn til þess að tækið sé í sínu besta formi. En hugsum við svona um hausinn á okkur sjálfum? Ég held að margir gleymi að uppfæra hausinn á sér en það er hægt að gera í gegnum lestur og hlustun – bæta við þær upplýsingar sem eru til staðar.Elín Kára

Læra allt sitt líf

Henry Ford orðaði þetta svo vel á sínum tíma. Sá sem hættir að læra er gamall. Hvort sem manneskjan er 20 ára eða 80 ára. Ég er sammála honum, það sem heldur okkur ungum er að vera alltaf viljug til að læra eitthvað nýtt.

Anyone who stops learning is old, whether at 20 or 80. Anyone who keeps learning stays young. The greatest thing in life is to keep your mind young. – Henry Ford

Ég var eitt sinn stödd í verslun sem selur tæki, tölvur, síma og fleira slíkt. Ég átti ekki til orð þegar maðurinn við hliðina á mér sagði við starfsmanninn sem var að reyna aðstoða hann: „ég er sko orðin 45 ára og búin með skóla fyrir löngu, ég er ekki að fara læra neitt nýtt!“ Þetta sagði blessaður maðurinn, rosalega ánægður með sig.

Fyrsta sem ég hugsaði var: ó guð, aumingja börnin hans.

Svo hugsaði ég: ó nei, veslings barnabörnin.

Af hverju hugsaði ég þetta? Jú, þessi ágæti maður er búin að ákveða það mjög ungur að læra aldrei neitt nýtt það sem eftir er. Hann á eftir að lifa í ca 30-40 ár til viðbótar og ætlar sér ekki að læra neitt nýtt því hann er „búin með skóla fyrir löngu“. Ó dæs! Tækniþróunin er svo hröð að ef þú uppfærir ekki þekkingu þína a.m.k. 18 mánaða fresti þá ertu komin afturúr.

Þessi maður mun fjarlægast börnin sín hratt og barnabörnin sín enn hraðar. Börnin munu ekki nenna að aðstoða hann því hann segist „hættur að læra“. Með tímanum nenna börnin ekki að umgangast hann því hann skilur ekki það sem er um að vera í kringum þau. Ætli þessi karl verði ekki gamalmenni í kringum 55 ára, bitur út í lífið og tuðandi um það hversu vitlaust allt þetta nýja dót er. Allt vegna þess að hann ákvað að hætta að læra, því hann væri sko búin með skóla.

Þetta var svipurinn minn þegar ég var inní búðinni.
Þetta var svipurinn minn þegar ég var inní búðinni.

Nú þekki ég ekki þennan mann sem stóð þarna við hliðina á mér í þessari búð. Og ég vona svo innilega að hann taki stefnubreytingu í þessum málum. Ég var hálf dónaleg, því ég starði á manninn stórum augum á meðan þessar vangaveltur flugu um hausinn á mér. Ég tók samt ákveðin lærdóm úr þessum hugsunum mínum þarna inni í búðinni.

Lærdómurinn er sá að ég lofaði mér því að vera alltaf tilbúin til að læra eitthvað nýtt. Ég ákvað líka að vera opin fyrir því að uppfæra þær upplýsingar sem ég hef fyrir í stað þess að reyna vita allt best. Reyna líka eins og ég get að skilja nýjungar, þó ég skilji þær ekki strax þá mun ég ekki bara hætta og gefast upp.

Eftir að ég kláraði skóla, þá hélt ég áfram að læra. Fór að sækja í þekkingu og lærdóm sem ég taldi nauðsynlegan fyrir mig til að komast lengra í lífinu. Bætti við mig það sem mér fannst vanta í hefðbundnu námi.

Lestur geftur þér tækifæri

Hvers konar bækur lestu?

Það er ástæða fyrir því að okkur er fyrst kennt að lesa. Að geta lesið sér til gagns og gamans eru hrein lífsgæði. Ég kláraði mína fyrstu bók þegar ég var 14 ára. Svo komu mörg ár sem ég las ekkert nema einstaka fyrirsagnir í blöðum og stuttar greinar.

Ég áttaði mig á því í kringum tvítugt að ef ég ætla að verða eitthvað, þá skildi ég verða betri í því að lesa.

Þegar ég las þessa blaðsíðu hér til hliðar þá einsetti ég mér það að lesa reglulega mér til gagns. Uppfæra hausinn á mér.

Eins og segir á myndinni þá gleymist oft nokkrar staðreyndir í umræðunni um muninn á milli fátækra og ríkra. Fátækt fólk er fátækt á öllum sviðum, fjárhagslega, félagslega, hugsanalega og veraldlega. Aldrei er talað um það hvernig fólk eyðir tímanum sínum, einungis horft á peningalega niðurstöðu.

Árangursríkt fólk les að meðaltali um 60 bækur og sækir um 6 ráðstefnur á ári. – Grant Cardone

Bókasöfnin á Íslandi eru full af uppbyggilegum og góðum bókum. Við höfum öll 24 tíma í sólarhringnum. Við búum í frjálsu landi þar sem við ráðum sjálf tímanum okkar. Nýtum þetta!

-Elín Káradóttir-