Öll fíflin og ég

„Það mætti halda að frauðplast sé inni hausnum á honum, hann er svo vitlaus. Það er ekki hægt að vinna með svona manni“ – sagði sá sem veit allt best í vinnunni sinni. Hversu oft hefur þú verið svo mikill snillingur í þinni vinnu að allir aðrir eru fífl og hálvitar sem vita ekkert hvernig á að gera nokkurn hlut – þú ert hin ómissandi manneskja fyrirtækisins og það færi á hausinn ef þú myndir hætta.

Vonandi ert þú ekki þessi manneskja, en kannski hefuru hitt þennan pésa í vinnunni þinni. Ég get viðurkennt eitt; ég var einu sinni þessi pési. Það gat nánast enginn annar gert hlutina jafn vel og ég. Flestir aðrir voru latir, illa vinnandi og með slæm vinnubrögð. Mér fannst fólk ekki hafa metnað fyrir vinnunni sinni og ég leyfði mér að láta fólk vita af því nokkuð reglulega að þetta væri alls ekki nægilega vel gert. Ótrúlega skemmtilegur vinnufélagi… eða bara alls ekki!

Óskaplega hafði ég gott af því þegar nokkrar manneskjur tóku mig í gegn á ákveðnu tímabili og tróðu þessum leiðindar pésa ofan í kokið á mér. Já, ég þurfti að breyta mínu viðhorfi til fólks í kringum mig og fara horfa á kosti þess í stað þess að einblína eingöngu á gallana.

Ég þurfti líka að troða minni fullkomnunaráráttu ofan í klósettið og hætta að láta eins og ég vissi allt mest og best. Það var erfitt en mjög nauðsynlegt. Ég þurfti að breyta mínu viðhorfi til bæði vinnunnar og vinnufélagana. Ég þurfti að nota nýtt orðalag til að fá fólk til liðs við mig en ekki upp á móti mér.

Kannast þú við þessa hegðun?

Þarft þú að breyta til?

Eða þarf einhver á þínum vinnustað að fara breyta framkomu eða hugsunum?

Ég held að það sé enginn ein rétt leið til þess að fækka fíflum í kringum sig. Það er auðveldara að vinna í eigin hugarfari og þannig mun fíflunum fækka.

Ég mæli með bókinni Vinsældir og áhrif – hún hjálpar til við að byrja þessa vinnu. Lestu hana oft, þannig virkar hún best.

-Elín Káradóttir-