Uppgefin?

Lífið er svo skemmtilegt. Hin týpíska móðir hefur nóg að gera; hugsa um heimili, vinnu, að allt sé tilbúið, hreint, fínt, hugsa um línurnar og matarræðið. Metnaðurinn fyrir vinnunni er mikill og áhuginn ennþá meiri. Alltaf smá samviskubit yfir því að vera ekki alltaf með allt á hreinu í sambandi við börnin. Vera inn í öllu sem er að gerast í vinahópnum. Fylgjast með því sem er inn í samfélaginu, tískunni og hvað var að gerast hjá öllum, hinum frægu og öðrum. Vera alltaf á hálfgerðum yfirsnúningi. Leysa verkefnin með stanslausan hávaða í eyrunum, barna-köll, hlátur og grátur.

Vá hvað lífið er skemmtilegt, litríkt  og meiriháttar! Sumir halda að ég skrifi þetta með kaldhæðni, en það er svo sannarlega ekki þannig. Ég man þann tíma sem ég var ein, átti ekki mann né börn. Mér leiddist þá, það var of mikil þögn. Jú, ég gat sokkið mér meira í vinnuna/skólann og sett mig meira inn í ALLT. Mér finnst miklu meira gaman að vera með krakkana með mér í lífinu, þó svo að það þýði meiri hávaði og það sé ekki hægt að vera „all-in“ í öllu sem maður væri til í að taka þátt í.

Stundum verður maður samt þreyttur. Það tekur á að vera alltaf með augun á börnunum, fá ekki fullan nætursvefn yfir alla nóttina (allar nætur) og sinna allri vinnu þannig að hún sé í lagi og gott betur en það.

Þegar þetta ástand er búið að vera lengi, þá verður eitthvað að víkja. Hjá mér hefur hreyfing og gott matarræði fengið að víkja fyrir engri hreyfinu vegna „tímaleysis“ og skyndiorka er notuð í stað þess að borða næringarríkan mat. Því miður hefur þetta verið að gerast. Já – ég er ekki fullkomin frekar en nokkur annar.

Nú verður tekin einn dagur í einu og gömlu góðu „heilsu-venjurnar“ mínar verða teknar upp aftur. Það mun eflaust reyna eitthvað á mig og ég mun örugglega misstíga mig.

Af hverju er ég að spá í þessu þegar ég hef nóg annað að hugsa? Vegna þess að ef ég væri með krabbamein, þá myndi ég ALLTAF, sama hvað, hafa 15-60 mín á hverjum degi til þess að hugsa um það. Þess vegna á ég alltaf að hafa 15-60 mín til að hugsa um heilsuna mína. Ég get vel gert mér nesti eins og ég gerði þegar ég var í háskólanum (því þá hafði ég líka nóg að gera). Ég get vel hreyft mig í 10-30 mín á hverjum degi alveg eins og ég hef  alla tíð gert, þar til núna síðasta árið.

Þetta snýst líka um vellíðan. Mér líður betur þegar ég borða vel og hreyfi mig aðeins á hverjum degi. Það er gott að líða vel. Þá sef ég betur og maður er orku meiri yfir allan daginn. Afköstin verða miklu meiri yfir daginn ef maður ræktar bæði líkama og sál.

Að þessu öllu sögðu – þá ætla ég að fara aftur í minn gamla lífstíl sem inniheldur heimagerðan „Línu-húsfreyju“ mat, nesti í vinnuna, hreyfing á hverjum degi og lestur á jákvæðu og góðu efni. Back to basic! Ég er spennt 🙂

Einn dagur í einu – þetta mun allt snúast um að taka eitt skref í einu.

-Elín Kára-