Hvað er að sjá vaxtalagið á þér?!?

Þarna stend ég, sátt við lífið og tilveruna. Sjálfskipaða 10 vikna pepp prógrammið mitt gengur vel og framundan er enn meiri árangur. Þrátt fyrir að einungis fimm mánuðir eru síðan ég eignaðist seinna barnið mitt þá er líkamsformið frekar gott að mínu mati. Það má segja að ég sé komin á bleika skýið – skýið sem er svo gott að vera komin á því það hjálpar manni að svífa áfram í rétta átt…. en þá kom það, þá kom þessi setning:

„Hvað er að sjá vaxtalagið á þér? Hvernig verður þú eiginlega um fimmtugt?“

Já, góð spurning. Eitt er víst að ég verð ekki nýbúin að eignast barn um fimmtugt svo ég verð tæplega í þessu formi sem ég er í dag. Hins vegar hef ég þá trú að ef ég tileinka mér þær góðu venjur sem ég er að temja mér í dag þá verð ég í ansi hraustu og góðu formi um fimmtugt. Takk samt fyrir spurninguna!

Ég vil taka það fram að þetta er ekki skáldskapur. Þessi setning var sögð við mig í vikunni. Hvað vakir fyrir manneskju sem segir svona? Ekki hugmynd - og ætla ekki að eyða minni orku og tíma í að hugsa um það. 
Sem betur fer þá er ég svo vel gift að eiginmaður minn var ekki manneskjan sem sagði þetta við mig. Ég myndi líka aldrei láta bjóða mér slíkt hjónaband.

Læt fylgja með mynd af mér sem var tekin í gær, þegar ég var nýbúin í hressandi 45 mín göngutúr.

Já, hér er ég, eins og ég er, með allt mitt vaxtarlag! 

Elín 12. ágúst 2018

Hver er staðan eftir viku sex?

Eins og einhverjir hafa tekið eftir þá er ég í sjálfskipuðu prógrammi sem ég kalla #10peppvikur. Þar sem ég hvet sjálfa mig áfram í átt að betra lífi, mjaka mér nær kjörþyngd og vera orkumeiri. Einhverjir eru að fylgjast með mér á Instagram (@ekaradottir) og sjá hvað ég er að elda og bralla í kringum #10peppvikur.

Staðan eftir vikuna er svona:

Matarræði: Þessi vika byrjaði ekki vel, það þýðir að ég var að borða mat sem mér leið ekki vel af. Matur sem er góður í munni en hrillingur í maga. Ég tók tvo slæma daga í byrjun vikunnar, fann svo skynsemina og byrjaði að borða gáfulega það sem eftir var vikunnar.

Mér líður vel þegar maturinn minni saman stendur af grænmeti, ávöxtum, grófu korni, fisk, eggjum og kjöt í algjöru lágmarki. Þegar ég borða einungis þennan mat þá verður maginn er sáttari og þarmarnir líka. Fyrir vikið sef ég betur og vellíðan eftir því. Þar vil ég vera og þannig ætla ég að vera.

Hreyfing: Ég tók laugardagsæfingu. Það er orðin fastur partur af rútínunni hjá mér – ég er mjög ánægð með það. Hins vegar fór allur frítími okkar hjóna í að bera á húsið í þessari viku. Ég er alveg með smá harðsperrur eftir verkið sem er mjög gott – tvöfaldur ávinningur þar.

Vellíðan:  Ég hef þurft að hafa mig alla við að hugsa rétt og leyfa hausnum ekki að grípa í það neikvæða við sjálfa mig. Að koma sér í betra form, hvort sem það er eftir barnsburð eða bara eftir almennt sukk, þá er þetta 80-90% andleg vinna. Berjast við hausinn sinn og leyfa honum ekki að draga mann niður. Í lok þessarar viku þá er ég á betri stað en í byrjun vikunnar. Þegar ég kafa djúpt í það hver ég er og hvert ég stefni – þá kemst ég alltaf að þeirri niðurstöðu í lokin að ég er heilt yfir ansi frábær manneskja.

Vigtin: -1,3 kg.