
Fyrir marga er það árlegur viðburður að byrja AFTUR í ræktinni í janúar eftir að hafa hætt nokkrum sinnum á síðasta ári. Við kaupum árskort og erum dugleg í 2-3 mánuði og svo ekki meir. En af hverju gerum við þetta? Af hverju veljum við alltaf að gera það sama þegar það liggur nokkuð ljóst fyrir að við höfum ekki gaman af því?
Margar ástæður geta verið fyrir því að við endumst ekki í ræktinni. Við kunnum ekki á tækin, erum ekki með prógram eða okkur líður ekki vel inn á líkamsræktarstöðvum í kringum allt „fallega“ fólkið. Fyrir mitt leyti er þetta allt saman góðar og gildar ástæður en þetta ætti ekki vera til þess að við hreyfum okkur ekkert. Ég er ekki að setja út á líkamsræktarstöðvar eða þá hreyfingu sem þar er hægt að stunda en þetta er ekki allra. Fyrir marga er það algjör pína að mæta en mörgum þeim finnst þeim verða að mæta þar sem „allir“ eru í ræktinni. Sumir prófa allar líkamsræktarstöðvar bæjarins í von um að finna hina einu réttu líkamsræktarstöð þar sem gaman verður að æfa.
Það er í góðu lagi að finnast ekki gaman að fara í ræktina og það má alveg segja það upphátt. Það sem skiptir meira máli er að við finnum okkur hreyfingu sem við höfum gaman af. Hreyfingu sem gerir það að verkum að okkur langar til að hreyfa okkur á hverjum degi, því það veitir góða tilfinningu.
Ef þér finnst gaman að fara út að ganga, farðu út að ganga. Hjóla, spilaða fótbolta, synda, spila badminton, pole fitness, box, hlaup eða svass. Aðal atriðið er að gera eitthvað og þú endist lengur ef það er gaman. Tilbreyting er líka nauðsynleg annað slagið svo það er ekkert að því að breyta til og finna sér nýja hreyfingu.
Veljum að hreyfa okkur á þann hátt sem við höfum gaman af hverju sinni. Á tímabili fór ég bara í sund, svo fór ég bara í ræktina. Eitt sumarið gekk ég á fjöll og í dag á ég ekki kort í líkamsrækt og fer í gönguferðir. Að vera á hreyfingu þarf að vera partur af lífstíl sem í kjölfarið færir okkur betri heilsu – það besta sem þú gerir samhliða þessu er að brosa og hafa gaman að lífinu.
-Elín Káradóttir-
Bakvísun: Mín 5 sent um hreyfingu – Betri fréttir