Baðherbergisskápurinn. Hjá einhverjum gæti verkefni dagsins tekið meiri tíma en verkefnin hingað til. Það vill oft verða að baðherbergisskáparnir og skúffur fá að mæta afgangi í tiltektum. Þess vegna er verkefni dagsins baðherbergisskápurinn.
Ef þú sinntir verkefni gærdagsins, þá ertu búin að henda ruslinu inná baði og þar með er tiltektin hafin að einhverju leiti.
Verkefni dagsins
Vertu með ruslafötu við höndina og svo geymslubox.
Farðu í gegnum alla skápa og skúffur inná baði. Hentu því sem er útrunnið eða því sem þú getur ekki hugsað þér að nota næsta mánuðinn. Settu það sem þú vilt eiga en ert ekki að nota dagsdaglega í geymsluboxið (eða körfu).
- Ertu með fullt af lyfjum sem eru útrunnin? Settu þau í sér poka og skilaðu þeim í næsta apótek til förgunar. EKKI HENDA ÞEIM Í ALMENNT RUSL.
- Ertu með fullt af sápum og kremum sem eru útrunnin?
- Eru einhver naglalökk, raksápur eða tannkrem sem eru útrunnin?
- Er eitthvað í skápunum sem þú vissir ekki að væri þarna og þú veist ekkert hvernig á að nota?
Þessar spurningar gætu aðstoðað þig við að henda út öllum óþarfa úr baðherbergisskápunum.
Eftir verkefni dagsins ættir þú að hafa það sem þú notar oftast fremst í skápunum. Það sem þú vilt eiga og notar annað slagið – það er í boxi eða körfu innar í skápunum.
Gangi þér vel – #sjödagatiltekt
-Elín Káradóttir-