
Straxsýkin hefur oft gert það að verkum að fólk nær litlum sem engum árangri. Við byrjum á einhverju og viljum að hlutirnir gerist STRAX. Ef þeir gerast ekki seinna en í gær þá er ekki til neins að standa í þessu og þá er betra að hætta.
Hljómar gáfulega?
Látum tímann vinna með okkur en ekki gegn okkur. Horfðu á tvo einstaklinga sem eru jafn gamlir og alast upp við svipaðar aðstæður. Eftir 30 ár er annar fórnalamb lífsins á meðan hinn nýtti sér tækifærin. Annar lét tímann vinna með sér á meðan hinn þjáðist af mikilli straxsýki og ákvað að sleppa „þessu“ frekar.
Litlar breytingar vs. átak
Við þekkjum öll söguna um skjaldbökuna og hérann. Þú kemst frekar í mark með því að taka skref fyrir skref en aldrei hætta. Í stað þess að fara rosalega hratt af stað, stoppa alveg og hvíla þig, því þá verður svo erfitt að koma sér af stað aftur.
Be not afraid of going slowly; be afraid only of standing still. – Chinese proverb.
Ég hef þurft að temja mér þessa hugsun og það hefur oft verið erfitt. Ég hef oft verið heltekin af straxsýki, en hún hefur ekki komið mér á góðan stað og klárlega ekki á þann stað sem ég vil vera. Lítil skref í þá átt sem ég vil stefna koma mér áfram. Þessi litlu skref sem er auðvelt að gera en á sama tíma líka auðvelt að gera ekki. Ég hef ákveðið að gera þau og það hefur skilað sér, á löngum tíma.
„Nú verður tekið á því“ segja margir í byrjun kaflamóta. Nú verður farið í átak og nú tekst þetta! Ég GET ÞETTA, þetta verður EKKERT MÁL! Eða hvað?
Mér finnst gott að fara í átak annað slagið til að ögra sjálfri mér. Tegja mörkin og gera eitthvað nýtt. Ég geri mér líka grein fyrir því að átak hefur upphaf og endi. Átak er eitthvað sem er ekki komið til að vera. Hins vegar hef ég breytt hugarfari mínu gagnvart „átaki“ því maður lærir alltaf eitthvað eftir átak og þau skilja yfirleitt eitthvað eftir sig. Eftir að ég horfði á átak sem tímabil til þess að prófa eitthvað nýtt og setja mér það að læra allavega eitthvað á þessu tímabili – þá fóru átök að vinna með mér (en ekki gegn mér).
Ég skal taka dæmi. Ég hætti að borða brauð í einn mánuð. Þetta hafði upphaf og endi. Ég var mjög ströng við sjálfa mig og það fór ekkert brauð inn fyrir mínar varir alla þessa 30 daga. Mér fannst það ekkert skemmtilegt oft á tíðum, á sama tíma var þetta ekkert sérstaklega erfitt en ég komst líka að því að svona vildi ég ekki lifa allt mitt líf. Þetta „ekki borða brauð átak“ gerði það að verkum að brauðát hjá mér minnkaði mjög mikið og stundum koma heilu vikurnar án þess að borða brauð. Þetta er hægt að gera með allt mögulegt. Fjármálin, hreyfingu, matarræði, læra í skólanum, lesa…. eiginlega hvað sem er.
Breyta grunninum
Þú þarft að breyta grunninum til að breyta um stefnu. Ástæðan fyrir því að fæstir gera það vegna þess að þetta er ERFITT! Og svo kemur straxsýkin upp í fólki og til verður hrærigrautur sem er oft kallaður „óþolinmæði“. Ástæðan fyrir því að fólk heldur sér ekki við litlu breytingarnar er vegna þess að útkoman er svo lengi að verða sýnileg.
Ég skal annað dæmi af sjálfri mér. Ég ákvað að taka stefnubreytingu varðandi þyngdina mína eftir að hafa gengið með dóttur mína. Á fjórum mánuðum hef ég losað mig við 10 kíló. Hvernig? Ég gerði lítil skref sem var mjög auðvelt að gera. Ég hélt mér við efnið og tók þessi litlu skref á hverjum degi.
Everybody´s busy. Everyone does the actions. But were they the right actions? Were those actions productive? Did you take a step forward? – Jeff Olson.
Þessi pistill er að einhverjum hluta byggður á kafla 9 í bókinni The slight edge eftir Jeff Olson.
-Elín Káradóttir-