Já sko, vel gert!

Ég hrósa nokkurra vikna dóttur minni fyrir hluti sem ég myndi ekki hrósa neinum öðrum fyrir. Ég hrósa henni fyrir hressileg prump og virðulegt rop. Ég er búin að hrósa henni fyrir að kúka uppá bak og vera dugleg að pissa. Ég hrósa henni stöðugt þegar hún drekkur eins og herforingi og um leið hrósa ég brjóstunum mínum sem mjólka enn meira fyrir vikið (eða ég trúi því allavega). Það er svo gaman að gefa svona litlu kríli hrós fyrir litlu sigrana hennar sem munu brátt þykja sjálfsagðir hlutir og svo með tímanum frekar óviðeigandi.

Börn fá hrós fyrir litla sem stóra sigra. Þau kunna að taka því og þau vita alveg hvort þau eiga það skilið að fá hrósið eða ekki. Börn ljóma upp ef þau eiga það skilið og halda áfram að vera góð á sínu sviði. En svo á einum tímapunkti hættir maður að hrósa og maður kann það einhvern veginn ekki lengur – af hverju?

Í vinnustaðagreiningum hjá stórum fyrirtækjum á Íslandi hefur komið í ljós að starfsmönnum finnst eins og yfirmenn hrósa lítið sem ekkert. En mig langar til að snúa dæminu við – hrósar þú þínum yfirmanni? Mér finnst það ekki síður mikilvægt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé líka gott að hrósa yfirmanni sínum annað slagið fyrir vel unnin störf á sama hátt og yfirmaður ætti að hrósa sínu fólki.

Að hrósa yfirmanni þýðir ekki að maður sé “yfirmannasleikja” – það er allt annað. Það er stór munur á því að kyssa bossann á yfirmanninum eða hrósa honum annað slagið fyrir það sem var vel gert.  

Sama á við um kennara – það er munur á því að vera kennarasleikja eða hrósa kennaranum fyrir það sem hann er góður að útskýra. Ég er afar þakklát mörgum af mínum kennurum í gegnum tíðina. Ég hef sérstaklega hrósað tveimur konum sem kenndu mér svo mikið og gáfu mér mikið námslega séð.

Image by © Royalty Free/Corbis
Image by © Royalty Free/Corbis

Ég vildi ekki hrósa þeim þegar ég var nemandinn þeirra, því ég vildi ekki vera kennarasleikja. Nokkrum árum síðar hef ég hins vegar sagt þeim hversu þakklát ég er fyrir þeirra kennslu og það sem þær gerðu fyrir mig, námslega séð.

Ég hvet þig til að hringja eða senda skilaboð til einhvers kennara sem þú ert þakklát/ur fyrir að hafa kennt þér – má vera kennari úr grunnskóla, menntaskóla, háskóla eða af námskeiði á einhverju sviði. Þetta þarf ekki að vera langloka heldur stutt “takk” fyrir vel unnin störf.

Vertu einlægur í hrósi.

Hrós á að vera stutt og laggott. Komdu með hrós og hættu svo að tala. Gerðu sjálfum þér og þeim sem þú ert að hrósa greiða og vertu ekki með langloku. Þegar einhverjum er hrósað þá veit sá aðili alveg fyrir hvað er verið að hrósa. Ef viðkomandi á það skilið þá þarf hann ekki að heyra í smáatriðum hvað var vel gert. Innistæðulaust hrós gerir engum gagn, hvorki þeim sem hrósar né þeim sem tekur við því. Innistæðuríkt hrós gefur góða tilfinningu, gleður báða aðila og jafnvel fleiri.

Hrós á ekki einungis að gefa þegar stórsigrar eiga sér stað. Litlu skrefin er það sem skiptir máli og kemur manni þangað sem maður ætlar. Hrósum líka þegar lítil skref hafa verið tekin í rétta átt – einu skrefi nær markmiðinu.

Leyfðu þér að hrósa sjálfum þér í einu og öllu þegar þú ert einn á ferðinni – það heyrir enginn í þér og þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst fyrir vikið.

Það er um að gera að nýta sér hæfileika annarra og læra af þeim. Þess vegna mæli ég með að þú lesir bls. 201-206 og 228-231 í bókinni Vinsældir og áhrif eftir Dale Carnegie. Bókina er að finna á öllum bókasöfnum landsins og mín skoðun er sú að hún ætti að vera til á öllum heimilum. 

Þó svo að þú lesir bókina þá þarftu að gera hrósið að þínu. Þú þarft að æfa þig – því æfingin skapar meistarann. Ég mæli með að þú byrjir á sjálfum þér og hrósir þér fyrir litla sem stóra sigra þegar þú ert ein/n á ferðinni.

Brjóta niður og byggja svo upp

Sumir halda að það megi ekki hrósa neinum nema setja út á eitthvað fyrst. Ég skil ekki hvaðan sú hegðun kemur því það er algjör óþarfi að brjóta fyrst niður og byggja svo upp. Það þarf ekki að koma með eitthvað neikvætt og segja að þetta hefði getað verið “aðeins betra” áður en maður hrósar. Stundum hefur það ekkert uppá sig að gagnrýna, því þú ert mögulega ekki að rýna til gagns.

Það er gott að hafa í huga: Kemst manneskjan lengra með því sem þú varst að segja eða átti hún mögulega skilið að fá bara hrós?

Ertu að setja út á eða ertu að leiðbeina til að viðkomandi komist lengra?
Settu þér markmið og gefðu einlægt hrós til fólks í kringum þig – þú munt upplifa skemmtilega tilfinningu í kjölfarið.

-Elín Káradóttir-

2 athugasemdir við “Já sko, vel gert!

  1. Guðrún

    Virkilega góður pistill Elín 🙂
    Gaman að þessu bloggi þínu.. ég ætla að deila þessum pislti.
    Takk fyrir mig 🙂

Lokað er á athugasemdir.