
„Sá dagur sem við hættum að lesa, er sá dagur sem við hættum að þroskast“. Ég veit ekki hver sagði þetta fyrst en ég heyrði þetta um daginn og það sló mig. Upp í huga minn kom móment sem ég hef áður skrifað um hér á blogginu, en það var um 45 ára gamlan manninn í verslun sem sagði með stolti: „ég er 45 ára og hættur í skóla, ég ætla ekki að fara læra eitthvað nýtt.“ Það sem ég heyrði var: ég ætla hætta að þroskast núna, lifa í 30 ár og fjarlægast allt mitt fólk meira og meira með hverjum mánuðinum. Það verður svo gaman að vera einn, tuðandi um það hvað börnin mín og barnabörn eru vitlaus fyrir að tileinka sér allt það nýja í stað þess að vera í fýlu og haga sér heimskulega eins og ég.
Mánuðinum, róleg, árunum – nei, ég segi mánuðinum! Við lifum í heimi sem breytist hraðar en nokkru sinni fyrr. Fyrir 30 árum og fyrir þann tíma var lögmál í gangi, þar sem þú þurftir ekki að læra neitt nýtt nema á ca 5 ára fresti og þú varst þokkalega inn í hlutunum. Í dag þarftu að læra eitthvað nýtt á að lágmarki 18 mánaða fresti ef þú ætlar ekki að detta afturúr og skilja nánast ekkert hvað er að gerast í kringum þig.
Og svo er fólk sem trúir því að það geti haft það næs með því að lesa ekkert gagnlegt eftir að það kemur úr skóla. Trúir því að það þurfi ekki að fara á námskeið í öllu mögulegu og trúir því að það sé nóg að læra eitthvað eitt og ætlar ekki að vera opin fyrir fleiru.
Hvað ert þú að lesa? Ef þú lest einungis stöðufærslur á Facebook og tíst á Twitter þá mæli ég með því að þú farir að setja þér markmið í lestri. Lestri á bókum eða gagnlegu efni á netinu – ekki smjatt frá hinum og þessum.
-Elín Káradóttir-
Bakvísun: Hættur að þroskast í hröðum heimi – Betri fréttir