Vinsældir og áhrif – Dale Carnegie

Bókin sem breytti lífi mínu, og margra annarra.

„Ég hef ekki efni á því að vera kaupa mér bækur.“ Nú farðu þá á næsta bókasafn og lestu bókina þar. Þessi afsökun er með þeim lélegri. Bókin Vinsældir og áhrif er á nánast hverju einasta bókasafni á landinu, og ef hún er ekki til þá geturu beðið um að láta panta hana á þitt bókasafn. Þú þarft ekki einu sinni að eiga krónu til þess að byrja vinna í sjálfum þér.

Ég keypti þessa bók í lok mánaðar á háskólaárunum, þegar veskið var nánast tómt og bókarkaup voru örugglega ekki það gáfulegast sem ég gat gert á þessum tímapunkti. Eða hvað? Allir sem hafa lesið þessa bók myndu segja: klárlega það besta í stöðunni. Þeir sem aldrei lesa bækur myndu fussa ofan í bringuna á sér og tauta að ég kunni ekkert með peninga að fara.

Eitthvað sem þessi bók kenndi mér er að hlusta ekki á neikvæða pésann. Hlusta á þá sem hvetja mann áfram og vera sjálf í þeim sporum að hvetja fólk áfram til góðra verka. Þegar ég keypti þessa bók var háskólanámið mjög erfitt og mig langaði til að gefast upp. Ég stalst til þess að lesa þessa bók frekar en að lesa námsbækurnar á tímabili, sem var eitt það besta sem ég gerði. Af hverju? Jú, vegna þess að eftir að hafa lesið þessa bók var ég mun upplagðari til að lesa námsefnið, tileinka mér þekkinguna og klára önnina með stæl.

Regla 1: Sýndu öðrum einlægan áhuga.

Regla 2: Brostu

Regla 3: Mundu að nafn hverrar manneskju er henni það mikilvægasta og hljómfegursta í heimi.

Regla 4: Vertu góður áheyrandi. Hvettu aðra til þess að tala um sjálfa sig.

Regla 5: Hagaðu máli þínu eftir áhugasviði þess sem þú ræðir við.

Regla 6: Láttu viðmælanda þínum finnast hann vera mikilvægur – og vertu einlægur í viðleitni þinni.

Það skiptir ekki máli hver þú ert eða á hvaða stað þú ert á í lífinu, þú hefur gott að því að setjast niður og lesa þessa bók. Ef meðal milljónamæringur les þessa bók einu sinni á ári þá er klárt mál að ég og þú þurfum að lesa hana líka, að lágmarki annað hvert ár.

Mín skilaboð til þín: Lestu hana, frá upphafi til enda og gerðu það oft yfir ævina. Ástæða þess að lesa bókina oft og reglulega er vegna þess að þú lest hana með öðru sjónarhorni frá ári til árs.

2 athugasemdir við “Vinsældir og áhrif – Dale Carnegie

  1. Guðrún

    Amen!
    Það eru allt of margir sem láta mata sig af fólki sem hefur ekki þeirra hagsmuni að leiðarljósi.

    Þessi bók er með þeim betri sem ég hef komist í og les hana allavega einu sinni á ári!

    Flottur pistill!

Lokað er á athugasemdir.