Í hvað ertu að eyða?

Hefur þú spurt þig að þessu: Í hvað er ég að eyða – hvert eru peningarnir að fara?

Margir hafa skrifað matardagbók til að fylgjast með hvað er verið að borða yfir daginn. Slíkri dagbók er skilað til einkaþjálfara sem leiðbeinir hvað má betur fara. Hefur þú leitt hugann að því að nota sömu aðferð til að sjá í hvað þú eyðir peningunum þínum? Hefur þú haldið fjármáladagbók?

Gætir þú teiknað þetta?

Ég hef haldið fjármáladagbók nokkrum sinnum í gegnum tíðina. Stundum tek ég 1 viku fyrir, stundum 1 mánuð. Mér finnst gott að gera þetta annað slagið – svipað og mér finnst gott að halda matardagbók reglulega til að átta mig á hvað ég er að borða.

Ég mæli með að þú prófir þetta – sama hver innkoma þín er, sama hver staða þín í þjóðfélaginu er, sama hver þú ert. Það hafa allir gott af því að skoða útgjöldin sín.

Gott er að taka einn mánuð en ég mæli með að taka eina viku til að byrja með ef þú hefur aldrei gert þetta áður. Í eina viku skaltu skrifa niður allt sem þú kaupir og hvað það kostar. Notaðu blað og penna – ekki tölvuna. Það er ástæða fyrir þessu, þú færð betri tilfinningu fyrir tölunum ef þú skrifar þær niður.

Þegar þú hefur skrifað niður öll útgjöld þín á hverjum degi í heilan mánuð þá mæli ég með að þú breytir til og notir Excel, Meniga eða önnur forrit.  Þau getur þú notað í framhaldinu til að aðstoða þig við að halda utan um fjármálin þín. Haltu þig við blað og penna ef þér líkar vel við þá aðferð – hún virkar.

Kveikja á hausnum

Mín reynsla af þessari einföldu aðferð var að það kviknaði á meðvitundinni minni, peningasóun minnkaði og mér tókst að setja meira í sparnað. Ég fór að átta mig á því hvað hlutir kosta og byrjaði að bera saman verð. Einnig var ég að eyða kjánalega miklu í hluti sem voru ekki að gera neitt fyrir mig.

Fjármála-dagbók í eina viku.

Fólk kaupir rosalega margt sem það notar ekki – þá ertu farin að sóa pening að mínu mati. Það skiptir ekki öllu hvað varan kostar – því ef hún er mikið notuð og sinnir þörfum þínum þá er verðmiðinn þess virði.

Ég fór að setja mér reglur um kauphegðun mína. Ef stök vara eða þjónusta kostar meira en 5.000 kr. þá þarf ég að hugsa mig um í að lágmarki 2 vikur (helst 1 mánuð). Ef mig langaði t.d. í flík sem kostaði meira en 5.000 kr. þá fór ég og mátaði hana ca 2x og eftir 1 mánuð var hún keypt, ef mig langaði ennþá í hana. 

Reynsla: oftast langaði mig ekkert að kaupa flíkina eftir 1 mánuð, en ef ég keypti hana þá var hún mikið notuð og þess virði að kaupa.

Horfðu í kringum þig – hvað sérðu? Sérðu hluti sem þú notar ekkert og uppfylla engar þarfir? Manstu hvenær þú keyptir þetta? Manstu afhverju þú varst að kaupa þetta á þessum tímapunkti. Manstu hvað þetta kostaði?

„Ég fékk þetta á svo góðu verði“ – já frábært, en ekki til neins ef þetta er aldrei notað.

Kveiktu á hausnum á þér – það eru gerfiþarfir út um allt og þær eru að tæma peningaveskið þitt. Búðu til þínar eigin reglur í einhvern tíma – taktu nokkra daga ef þér finnst vika of mikið. Það er þess virði að prófa.

Ég skora á þig að kommenta hér fyrir neðan eftir vikuna og segja frá þinni reynslu. Ef þú vilt deila því með mér, þá er þér velkomið að senda tölvupóst á elinkara@icloud.com 
Fyrst og fremst - gerðu þetta fyrir þig.