Við þurfum að uppfæra hausinn okkar alveg eins og við uppfærum símana okkar. Margir leggja meiri áherslu á að síminn sé með nýjustu uppfærslu, heldur en að uppfæra hausinn á sér. Ég held að aðal ástæðan fyrir því er sú að margir halda að þess þurfi ekki og svo vita menn ekki hvernig það er gert.
Við þurfum öll að uppfæra þekkinguna okkar reglulega. Þær óskrifuðu reglur sem voru í gangi fyrir 10-20 árum eru dottnar úr gildi á mörgum sviðum; hreyfing, samskipti, framkoma, peningar, eignir, hvatning, vina-samband, hjónaband, o.s.frv. Í kringum alla þessa þætti eru mikið til breyttar leikreglur. Þess vegna þurfum við að uppfæra okkur.
Ég, með mín vandamál

Það er ekkert nýtt undir sólinni. Vandamálin sem fólk í vestrænum heimi eru að glíma við eru ekkert ný á nálinni. Þegar ég fór að hlusta á erlenda fyrirlestra á netinu, þá fattaði ég að fólk í Bandaríkjunum, Bretlandi og stóran part af allri Evrópu eru að glíma við sömu vandamálin og ég.
Allskonar pínu lítil vandamál sem ég hélt að ENGINN nema ég væri með… og aumingja ég að vera með öll þessi vandamál.
Nema hvað, með því að hlusta á allskonar fyrirlestra, þá lærði ég aðferðir við að finna lausn á þessum vandamálum. Það er til fullt af fólki sem hefur líka átt svona vandamál, það fann út leið til að tækla vandamálið og deildi því svo með umheiminum á youtube (æðri máttarvöld mega blessa internetið). Þvílík snilld!! Það er raunverulega ekkert nýtt undir sólinni – ég á sömu vandamál og aðrir. Og ég get tekið styttri leið en aðrir við að leysa þau, með því að læra af þessu fólki. Þannig að vandamálin eru ekki lengur fyrir mér.
Finna lausnina á vandamálinu
Sumir elska vandamálin sín; það er fólkið sem hjúkrar vandamálunum sínum, klappar þeim og dúðar þau inn í bómul á hverjum degi. Þetta er fólkið sem vill ekki heyra eða finna lausnir á vandamálunum – því hvað ætti það þá að tala um? Hvaðan ætti að það að fá (neikvæða)athygli?
Vandamál eru allsstaðar, þau eru misjafnlega stór og flókin. En þau eru allsstaðar. Spurningin er: hversu góð/ur ætlar þú að vera í því að tækla þau?
Þeir sem eru eða ætla sér að vera góðir í að tækla vandamál þurfa að uppfæra hausinn sinn. Uppfæra þekkinguna sína. Það geri ég með því að hlusta á TED TALK, hlusta á hljóðbækur sem ég kaupi eða fæ lánað. Borga mig inná fyrirlestra og ráðstefnur (hérlendis og erlendis) ásamt því að mæta á opna fyrirlestra. Einnig borga ég fyrir námskeið eins og Dale, Keyhabits og margt fleira. Þetta geri ég til þess að vera betri í að leysa vandamálin mín.
Hvað ert þú að gera?
Ætlar þú að hjúkra vandamálunum þínum eða leysa þau?
-Elín Káradóttir-
Bakvísun: Uppfæra sjálfið – Betri fréttir