Góðar venjur til lengri tíma

Góðu venjurnar sem maður var með í vor, voru vel smurðar í vogaídýfu ásamt Þykkvabæjarsnakki og fengu að renna ljúft niður með bjórnum í sumar. Öll hreyfing datt niður en það er allt í lagi, því ég fór í eina útilegu og þurfti að labba í 5 mín frá bílastæðinu – með tjaldið undir hendinni! Þetta var á við góða lyftingaræfingu. En nú er sko haustið komið, allir búnir að þyngjast um 2-5 kg og búnir að fá ógeð af sukkinu. Þá er best að bjóða haustið velkomið í öllu sínu veldi og byrjum allt uppá nýtt.

Elín Kára

Hljómar kunnuglega?

Þetta er ekki lýsing á mínu sumri í sumar. Ég viðurkenni samt að flest allar mínar góðu venjur fengu að víkja fyrir morgunógleði og lystarleysi í sumar. Sem betur fer þá er ég komin á þann stað í minni meðgöngu í dag að ég get farið að taka inn fleiri og fleiri góðar venjur sem láta mér líða vel.

Byrja alltaf uppá nýtt?

Af hverju erum við alltaf að byrja aftur og aftur uppá nýtt? Ég heyri rosalega oft fólk tala um að taka skorpur í hlutunum. „Ég tók skorpu í að drekka vatn“, „ég tók skorpu í að mæta í ræktina“, ég tók skorpu í að borða þannig að mér líður alltaf vel“, ég tók skorpu í að halda hreinu heima“, „ég tók skorpu í að læra heima“…o.s.frv.

Af hverju ekki að búa sér til venjur sem eru til langs tíma og virkilega munu þjóna einhverjum tilgangi?

Að taka endalausar „skorpur“ er nánast tilgangslaust. Það er eins og að vera skipstjóri á Titanic og í stað þess að byrja beygja skipinu framhjá ísjakanum, tekur þú skorpur í að endurraða öllum húsgögnum skipsins*. Tilgangslaust!!!

Notaðu þetta nýja upphaf sem er núna í haust til þess að byrja með nýjar venjur til lengri tíma. Taktu eitthvað eitt fyrir. Eins og til dæmis að drekka meira vatn. Það kostar ekkert á Íslandi og heilsuávinningurinn er gríðarlega mikill. Tveir lítrar af vatni á dag á að vera inni í þinni daglegu rútínu, alltaf, allt árið – og líka á sumrin.

Ef slík vatnsdrykkja er þér eðlileg, taktu þá eitthvað annað fyrir. En bara eitthvað eitt. Farðu núna að gera einhverjar alvöru breytingar.

Taktu beygjuna á skipinu þínu og hættu að endurraða húsgögnum.

-Elín Kára-

*Tilvitnun í bókina Out of fire eftir Dr. Paul Clayton.