Tilfinningalegt át

Hvað er betra en volg súkkulaðikaka með rjóma og ískaldri mjólk? Ekkert! Hversu gott er að fá sér brakandi snakk með ídýfu eða jafnvel heitri eðlu..?… ohhh… svooo gott! Hvernig er best að kæfa sorgina yfir dramatískum þætti á Netflix? Jú auðvitað með Ben and Jerry ís!

Besta leiðin til að kæfa tilfinningar er að éta þær ofan í sig og til þess að tryggja að maður horfist ekki í augu við þær þá er best að troða þeim niður með einhverju góðu! Og það veitir enn betri árangur að borða eitthvað gott nógu oft til þess að finna sælutilfinninguna í stað þess að upplifa þá vondu.

  • Erfitt verkefni í vinnunni – best að skola þeim niður með kleinuhring eða snúð.
  • Erfið samskipti við maka – paprikku skrúfusnakk (heyrist hátt í því og hægt að riðja því ofan í sig).
  • Gaurinn/gellan sem þú varst í svaka góðum samskiptum við er allt í einu komin með aðra/annan – stór skammtur af frönskum og kokteilsósa!
  • Ég er allt of feit/ur og ég skil ekki af hverju ég léttist ekki  – pizza í kvöldmat og stór bragðarefur á eftir (engir ávextir í þennan).

Hvernig væri að við færum að drekkja sorgum okkar í salat? Eða jafnvel grænan safa? Af hverju er það alltaf popp og kók en ekki vatn og epli (uuu Elín, það soundar ekki einu sinni – okay! pera og kaffi 🙂 það hljómar).

Öllu gríni slepptu – af hverju étum við tilfinningar okkar? Einn daginn áttaði ég mig á því að ég var að bæla niður tilfinningar með mat. Eftir erfiðan dag langaði mig mest af öllu til að háma í mig allskonar sem ég hef iðulega enga list á að borða. Við mikið álag sótti ég í að borða (háma í mig) hvað sem var hendi næst. Af hverju gerði ég þetta?

Þegar ég áttaði mig á þessu þá var mesti sigurinn unnin! Svo þurfti ég að viðurkenna að ég hefði þessa hegðun. Því næst horfðist ég í augu við það og í dag þá vigta ég flest allt sem ég borða og skrái það niður í Myfitnespal appið.

Af hverju? Ég var hætt að kunna „að borða í hófi“. Ég vildi fá djúpan skilning á því af hverju maður á að borða lítið af ákveðnum mat og mikið af öðrum. Síðast en ekki sýst þá vildi ég horfast í augu við allskonar tilfinningar sem mannveran „ég“ finn fyrir (eins og allir aðrir) og hætta að troða þeim niður með mat. Það er bara svo vitlaust að það nær engri átt!

Takk og bæ!

-Elín Kára-