Er komin með nóg af fólki!

„Vinnan mín væri æðisleg og svo þægileg, ef það væri ekki fyrir allt þetta fólk sem er fyrir mér“ – segja allir, einhvern tíman. Fólk sem vinnur í afgreiðslustörfum kemur eflaust fyrst upp í hugan á þér. Sérfræðingar í öllum starfsgreinum segja þetta líka. Ég get eiginlega ekki nefnt þá starfsgrein sem býr við þann lúxus að þurfa aldrei að díla við fólk. Hvort sem það er fólk sem viðskiptavinir eða fólk sem samstarfsfélagar.

Ef allir myndu vera kurteisir, sýna tillitsemi og hógværð í framkomu við aðra, þá væri töluvert einfaldara og léttara að vera í vinnunni sinni. Ef viðskiptavinurinn væri ekki meira en helmingi snjallari en þú í vinnunni þinni (sem þú sinnir uppá hvern dag), þá væri töluvert auðveldara að afgreiða viðskiptavininn.

Ég hef starfað í hinum ýmsu þjónustu störfum og afgreitt margt misgáfulegt fólk, sem er flest allt sjálfskipaðir sérfræðingar í mínu starfi. Ég hef gert allt mitt besta við að þjónusta þetta fólk, en viðurkenni að það er erfitt.

Á sama tíma þá hef ég lofað sjálfri mér því að sýna öðru afgreiðslufólki kurteisi og virðingu. Ég reyni ekki að vera sjálfskipaður sérfræðingur í þeirra starfi. Ég brosi til afgreiðslufólks og reyni að gera allt til þess að líf þeirra sé gott, rétt á meðan það er að afgreiða mig.

Ég hvet ykkur öll til að gera það sama. Ekki rasa og þrasa um að „fólk“ í kringum þig sé óþolandi og svo ertu ein/n af þessu „fólki“ þegar þú hættir í vinnunni þinni og ert á meðal almennings. Æfum okkur í að vera tillitssöm og þolinmóð við fólk sem er í vinnunni sinni, að gera sitt allra besta.

-Elín Kára-

Ein athugasemd við “Er komin með nóg af fólki!

  1. Bakvísun: Er komin með nóg af fólki! – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.