
Ég heiti Elín Káradóttir og held úti bloggi um jákvætt hugarfar, fjármál og lífstíl. Húsfreyjan segir stundum nokkur orð og er með allskyns ráðleggingar um eldamennsku og heimilishald.
Ég er á þeirri skoðun að það sé vöntun á jákvæðu og uppbyggjandi efni á íslensku, sem fjallar ekki einungis um matarræði, líkamsrækt og heilsu.
Mig langar til að deila með fólki öllu því sem ég hef verið að læra og því sem mig langar til að venja mig á að gera. Ég er með markmið að lesa á hverjum degi í 30 mín, það tekst ekki alltaf en ég held samt áfram að venja mig á það.
Ég hef margt fram að færa og ég er fullviss um að margir geta tileinkað sér einhverja punkta frá mér til að gera betur í sínu lífi.

Ég er gift Sigurði, sem er alltaf kallaður Siggi og saman eigum við tvö börn, stelpu og strák. Við erum ólíkar persónur og höfum gaman að því að ræða um mismunandi sjónarhorn á öllu mögulegu. Við sameinumst í pælingum um fjármál, sjálfsuppbyggingu og að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni. Verkefni sem kenna manni eitthvað eða gera mann að betri manneskju í samfélaginu.
Sjálf er ég eigandi að Byr fasteignasölu í Hveragerði. Einnig erum við Siggi með lítinn rekstur samhliða okkar aðal vinnu. Við erum bæði þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að vera með fleiri en eina innkomu. Við reynum að horfa eftir tækifærum í gegnum lífið en ekki vandamálum.
Ný hugsun á nýjum tug
Í kringum 2010 fór ég að hugsa um matarræði og hreyfingu. Mér fannst erfitt að kyngja fullyrðingum frá fólki um framtíðar útlit mitt og heilsufar. Fólk leyfði sér að fullyrða að þegar ég yrði fullorðin þá yrði ég feit eins og allar hinar frænkur mínar. Svo væri það í ættinni að vera með of háan blóðþrýsting.
Ég hef komist að því að ekkert af þessum fullyrðingum standast skoðun, nema auðvitað ef ég borða mjólkurkex, kjötfars og drekk nýmjólk oft í viku – þá gæti þessi “ættgengi” háþrýstingur herjað á mig líka.
Eftir að ég fór að hugsa um matarræðið þá ákvað ég að vera opin fyrir því að hlusta eftir nýjum hugmyndum og komast úr þeirri fornaldarhugsun “svona hefur þetta alltaf verið”. Í kjölfarið hef ég kynnst mörgu nýju fólki, nýjum leiðum, nýjum hugmyndum, öðruvísi matarræði og allt annarri hugsun um hvernig hægt er að lifa lífinu.
Fólk er uppteknara að árangri annarra, en að plana sinn eigin árangur.

Ég sat fyrirlestur hjá mjög vel efnuðum athafnamanni árið 2012 og það kveikti á mörgum perum í hausnum á mér. Ég var stórlega hneyksluð eftir fyrirlesturinn; hvernig gat maðurinn talað svona og þvílíkar fáranlegu hugmyndir sem þessi maður bar upp á borð. En samt sem áður byrjaði margt að breytast í kjölfarið.
Ég fór að pæla í fjármálum; hvernig útgjöldin og innkoman hjá mér væri. Einnig byrjaði það að trufla mig að ég væri aðeins með eina innkomu en ekki margar.
Ég fór að lesa bækur sem kveikja á hugsun og skilja eitthvað eftir; fór að fjárfesta í sjálfri mér bæði meðvitað og ómeðvitað, líkamlega og andlega.
Með þessari breytingu fór ég að hlusta meira á fólk sem hefur náð árangri á sínu sviði í lífinu. Mig langaði að vita hvað þessir einstaklingar eru að gera öðruvísi en við hin. Breytingin varð til þess að fréttasjúklingurinn sjálfur, sem ég var, hlustaði minna á útvarp eða dægurmálaumræðu. Í staðin byrjaði ég að hlusta á jákvæða fyrirlestra með fólki sem er árangursríkt á sínu sviði og hvetur mann áfram í lífinu.
Þetta snýst allt um venjur
Ég hef verið að taka til í venjunum mínum markvisst í nokkur ár. Í þeirri vinnu hef ég verið að setja mér skammtíma- og langtíma markmið. Samhliða því eru sjálfskipuð verkefni sem ég fylgist með hvort þau séu kláruð eins og ég lagði upp með. Venjur er það sem við gerum dags daglega og venjunum þarf að breyta í samræmi við það hvernig lífi maður vill lifa.
Fékk aldrei 10 í stafsetningu – hef samt skrifað pistla, ræður og ritgerðir.
Grét í enskutímum í grunnskóla því ég skildi ekkert – hef samt haldið ræðu fyrir framan tæp 3000 manns á ensku.
Ég hef lengi sagt: “þú ert höfundur af þínu lífi – svo þú skalt ekki leyfa þér að kenna öðrum um þínar eigin venjur“. Venjur geta verið að búa um rúmið á hverjum degi, klára uppvaskið strax, segja eitthvað fallegt við makann á hverjum degi eða hreyfa sig reglulega. Ég sjálf vel að temja mér ákveðnar venjur uppá hvern dag og þannig stjórna ég mínu lífi.
Tölum saman
Ef þú vilt koma einhverju á framfæri eða hafa samband við mig þá er þér velkomið að fylla út formið hérna að neðan. Endilega taktu skrefið og gerðu eitthvað nýtt.