Boltarnir þínir

 

Hvað ert þú með marga bolta?
Hvað ert þú með marga bolta?

Fólk sem nær mjög góðum árangri í lífinu er búið að venja sig á að halda 4-7 boltum á lofti án þess að missa þá alla niður. Þetta krefst æfingar og því betri sem þú ert að halda boltum á lofti, þeim mun öflugari fyrirmynd og leiðtogi verður þú fyrir fólk í kringum þig. 

Sumir eru vanir að halda einum stórum og góðum bolta á lofti. Bolta sem er auðvelt að henda upp og grípa. Þessi bolti er þægilega stór og þungur, hann svífur ekki of hátt og ekki of lágt. Hann gæti ekki verið þægilegri.

Hjá sumum heitir hann „ég sjálf/ur“ en hjá flestum heitir þessi stóri og þægilegi bolti „heimili og vinna“. Sumir þurfa ekki fleiri bolta í líf sitt en mjög margir kunna vel við sig að halda tveimur boltum á lofti; heimilið og vinnan í einum stórum bolta og svo áhugamál í öðrum bolta.

Fjölga boltunum

Langar þig til að fjölga boltunum þínum úr tveimur í fimm? Ef þú ert búin að halda á tveimur boltum í mörg ár, jafnvel áratugi þá eru miklar líkur á því að þú missir alla boltana ef þú bætir allt í einu við þremur boltum.  

Ef þú ætlar að fjölga boltunum sem þú heldur á lofti þá þarftu að bæta einum í einu. Æfa þig að halda 3 boltum áður en þú bætir við þeim fjórða. Halda fjórum boltum uppi þangað til þú bætir þeim fimmta.

Annað slagið koma skopparaboltar til söguna. Þeir eru svo litlir að það er ekkert mál að bæta þeim inn í smá stund, því svo fara þeir í burtu. Slíkir skopparaboltar eru skyndiverkefni, stuttar áskoranir eða skorpuvinna sem tekur mánuð eða minna.

Hvað áttu við? Tökum dæmi.

Manneskja sem er vön því að hafa það náðugt heima hjá sér um kvöld og helgar, svo mætir þessi manneskja samviskusamlega í sína vinnu og sinnir henni mjög vel.

Í sama mánuðinum byrjar þessi manneskja að mæta í ræktina 4x í viku, byrjar í félagsstarfi, mætir 1x í viku á námskeið og byrjar með tilvonandi maka (en veit það samt ekki strax, þetta er á deit tímabilinu).

Hér er um að ræða fjóra nýja bolta sem þessi manneskja ætlar að fara halda á lofti. Ofan á þetta er verið að skipuleggja stórafmæli hjá fjölskyldumeðlim (skopparabolti) og svo ætlar þessi manneskja líka að taka sig á í matarræðinu (sem má líka við fótbolta sem þú ætlar að halda á lofti með fótunum, því hendurnar eru uppteknar).

Hvernig ætli þessari manneskju muni ganga?

Líklega detta allir boltarnir niður á nokkrum dögum eða vikum. Vegna þess að hún er bara vön að halda tveimur boltum með góðum takti. Allir þessir auka boltar verða of stórir, þungir og hún gefst upp. 

En er hægt að halda svona mörgum boltum á lofti? Já, það er vel hægt. En það tekur tíma að venja sig á það og koma því þannig fyrir að þér þykir það eðlilegt.

Þú þarft að svara því hvað þú vilt geta gert án þess að reyna mikið á þig. Svo þarftu að byrja venja þig á litla hluti sem koma þér í þá átt. Fáðu aðstoð, viðtal eða hvað sem hjálpar þér til að koma þér á þann stað sem þú vilt. Hvað á ég við með því? Jú ef þú vilt verða lögfræðingur – talaðu við lögfræðing, sjáðu hvernig slík manneskja eyðir deginu, skipuleggur sig o.s.frv.

Hvað heldur þú á mörgum boltum?

Manneskja sem er vön því að halda á lofti 4-5 boltum frá því að hún var unglingur finnur fyrir tómarúmi ef þeim fækkar. Boltarnir geta breytt um lit, áferð og sumir eru stærri eða minni en aðrir. Það er eðlilegt að skipta einum bolta út fyrir annan nokkrum sinnum á lífsleiðinni. 

Hvernig líta boltarnir þínir út?

Þarf að fækka þeim eða fjölga?

Eru sumir þeirra kannski orðnir gamlir, slitnir og úreltir?

Finnst þér gaman að kasta þeim boltum sem þú ert með?

-Elín Káradóttir-

 

Ein athugasemd við “Boltarnir þínir

  1. Bakvísun: Boltarnir þínir – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.