Litlu einföldu skrefin

Þessi litlu skref sem er auðvelt að taka en á sama tíma líka auðvelt að taka ekki. Ofboðslega margir byrja að taka litlu skrefin, en hætta svo að taka þau. Af hverju hættum við að taka þessi einföldu skref? Það er svo auðvelt að sleppa þeim, safna þeim upp og gera þau seinna. Svo er útkoman lengi að vera sýnileg með því að taka lítil skref, þannig að lang flestir gefast upp á því að taka þau jafnt og þétt.

Það er ERFITT að halda áfram!

Við viljum að hlutirnir gerist strax og helst í gær. Óþolinmæðin gengur oft frá okkur og hún getur mælst svo hátt hjá sumum að það eyðileggur allt sem fólk tekur sér fyrir hendur. Straxsýkin gerir það að verkum að litlum sem engum árangri er náð. Við byrjum á einhverju og viljum að hlutirnir gerist strax. Og ef þeir gerast ekki seinna en í gær, þá er ekki til neins að standa í þessu og þá er miklu betra að hætta. 

Er það? Er í alvörunni betra að hætta? Í stað þess að taka lítil skref, eitt í einu og halda alltaf áfram að taka þau. Þannig látum við tímann vinna með okkur en ekki gegn okkur.

Alveg eins og í sögunni um skjaldbökuna og hérann. Þú kemst frekar í mark með því að taka skref fyrir skref og hætta aldrei. Ég hef þurft að minna mig á þetta og það hefur oft verið mjög erfitt. Ég hef verið heltekin af straxsýki, en hún hefur hingað til ekkert hjálpað mér að komast áfram.

Lítil skref eru tekin í öllu

Settu þetta í samhengi við allt sem þú ert að gera. Ástæðan fyrir því að fæstir eru grannir, ríkir og hamingjusamir (fit, rich and happy) er vegna þess að menn nenna ekki að taka lítil skref í þá átt til lengri tíma.

Ástæðan fyrir því að fólk hættir í skóla er vegna þess að það finnur sig ekki í því að gera öll litlu verkefnin yfir önnina.

Ástæðan fyrir því að margir eru ekki nálægt kjörþyngd er vegna þess að það tekur ekki lítil og einföld skref í átt að heilbrigði til lengri tíma. Margir ætla að gera þetta í skorpum hér og þar í stað þess að vinna þetta markvisst.

Ástæðan fyrir því að meðal yfirdráttur hjá Íslendingum er ca 1 milljón króna er vegna þess að straxsýkin hefur tekið öll völd. Þolinmæðin er enginn fyrir því að taka lítil einföld skref í átt að sparnaði eða minni eyðslu. Hlutirnir þurfa að gerast strax; „ég þarf að eignast þetta STRAX“.

Ástæðan fyrir því að alltof mörg hjónabönd flosna upp er vegna þess að menn gefa sér ekki tíma til að hlúa að sambandinu. Gera eitthvað lítið reglulega sem skilar sér til lengri tíma. Í stað þess að taka öllu sem sjálfsögðum hlut og ætla svo að grípa til einhverra úrræða þegar allt er komið í steik.

Lítil skref í rétta átt er falda leyndarmálið í velgengni fólks. Settu hugsunina um lítil skref í þau verkefni sem þú ert að takast á við.

-Elín Kára-