Er hávaði? Taktu til!

Vaskurinn alltaf fullur?

Er dót út um allt eða er snyrtilegt í kringum þig þegar þú lítur upp frá tölvuskjánum? Horfðu upp og virtu fyrir þér hvernig stofan, eldhúsið eða skrifborðið lítur út. Hvernig er radíusinn þinn?  

“Já okay, er það öllum hinum að kenna að dótið er út um allt”? Nú færðu ótrúlega staðreynd beint í æð: Ef allir sem búa á heimilinu ganga frá eftir sig, þá er ekki dót út um allt.

Sumir eyða meiri tíma í að bísnast yfir því að aðrir á heimilinu gangi ekki frá eftir sig en gera lítið sjálfir. Best er að horfa í eigin barm og svara því hvert framlag þitt er til að hafa allt á sínum stað.

Hvað börn varðar, þá er nauðsynlegt að kenna börnum snemma hvernig á að ganga frá eftir sig og muna að þau læra best það sem fyrir þeim er haft. Ef barn getur gengið frá eftir sig á leikskólanum, þá er það líka hægt heima fyrir.

Kominn tími til að henda

“Ég get ekki gengið frá öllu, því það er ekki pláss fyrir allt þetta dót” – nú, þá áttu alltof mikið af dóti og þarft að fara henda. Flóknara er það ekki.

Ég sjálf á nokkur skipulagsbox og hef átt í nokkur ár. Í hvert skipti sem tekið er til í þeim, þá er einum til tveimur höldupokum hent. Ég setti mér markmið að dótið mitt fær aldrei að flæða uppúr þessum kössum. Ég vil eiga allskonar dót, sem á hvergi heima svo það fær samastað í skipulagsboxum. En því miður verður þetta dót úrelt og hefur lítið sem ekkert gildi fyrir mig svo því er iðulega hent eftir eins árs dvöl í skipulagsboxunum.

Getur verið að þú þurfir að gera þetta líka?

Hávaði en samt engin tónlist í gangi.

Skrýtið! Samt ekki, því dót út um allt býr til mikinn hávaða (e. noise). Ein af ástæðum þess að þú ert alltaf þreyttur gæti verið vegna þess að þú átt alltof mikið af dóti. Önnur ástæða gæti verið sú að dótið er út um allt.  

Ég skal taka dæmi: Heima hjá mér er sjónvarpið í hillueiningu. Í hillunum var ég með DVD myndir mjög snyrtilega og vel raðað. Ég var með myndaramma, glös, styttur og margt sem mér þótti vænt um. Einn daginn var allt tekið í burtu og eftir sátu þrír kertastjakar.

Búmm!! Vá, hvað þetta var mikill léttir og það hætti að vera svona mikill hávaði í kringum sjónvarpið (þegar slökkt var á sjónvarinu).

Hvernig eru eldhússkáparnir hjá þér? Er auðvelt að ná í það sem þú notar daglega? Er hnífaparaskúffan þannig að hún opnast auðveldlega og þú finnur strax helstu verkfæri? Er kannski komin tími til að laga til í 1-2 skúffum og skápum? Gæti það mögulega létt þér lífið?

Stutt tips varðandi eldhússkápa

Venjulegt heimili notar ekki mörg tæki uppá hvern dag. Mér finnst gott að hafa algengustu tækin fremst í skúffum og skápum – allt annað er geymt á stöðum þar sem þeir eru ekki fyrir mér. Eldhústæki og dót sem ég nota mjög sjaldan er geymt í plastboxi inní geymslu.

Einfaldaðu nærumhverfið

Fyrir nokkrum árum síðan vildi ég eiga mikið af dóti og hafa það allt við höndina. Allar hillur voru stút fullar og mér fannst ég verða eiga mikið af dóti. Ég veit ekki hvað gerðist en ég einfaldaði líf mitt – tók hávaða í burtu! Ég horfði á hvern hlut sem ég sá og spurði: nota ég þetta og hvenær var þetta notað síðast??

Vá, hvað ég einfaldaði líf mitt mikið! Svo komst ég að því nokkrum mánuðum síðar að þetta tilheyrði minimaliskum lífstíl. Ég mæli með að þú kynnir þér hann – það eru örugglega einhverjir góðir punktar þar sem þú getur tekið þér til fyrirmyndar 🙂

Umgengni þín getur haft áhrif á árangur í lífi og starfi.

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Er hávaði? Taktu til!

  1. Bakvísun: Er hávaði? Taktu til! – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.