Tvö vandamál er hægt að tengja við fjármál fólks, eiga of mikið af peningum eða of lítið af peningum. Hvort vandamálið má bjóða þér? Allskyns vandamál, flækjur og verkefni tengjast því að eiga bæði lítið og mikið af peningum. Eftir því sem ég les meira eftir vel efnað fólk, þá hef ég gert mér grein fyrir því að peningar leysa engin vandamál. Hins vegar er fylgni á milli þess hversu vel þú uppfærir hugarfarið þitt og hversu mikla peninga þú þénar.
Vörn og sókn
Hvort kemur á undan, vörnin (spara og draga úr kostnaði) eða sóknin (auka tekjur)? Þú þarft alltaf að vera í vörn og nýta svo hvert tækifæri til að fara í sókn, og á sama tíma finna jafnvægi þarna á milli. Skoðum þessa tvo vini sem tengjast þínum fjármálum.
Margir eru fastir í vörninni; eru alltaf að spara og skera niður. Ég er fylgjandi þess að vera í vörn, spara og draga úr óþarfa kostnaði. Gallinn við vörnina er að hún er takmörkuð. Þú þarft alltaf að eyða í húsnæði, mat og annan grunn til þess að lifa í nútíma vestrænu samfélagi.
Sókn í fjármálum felur í sér að auka tekjurnar. Ég hef áður bent á það að meðal milljónamæringur er með um 7 tekjupósta (það þýðir að innkoman kemur frá 7 mismunandi stöðum). Þegar maður veit þetta, þá þarf maður ekkert að vera hissa á því að flestir eru ekki milljarðamæringar, því flestum er kennt að vera einungis með eina tekjulind sem er dagvinnan. Ég vil kalla þetta að fara í sókn, að fjölga þessum tekjulindum. Ímyndaðu þér hversu góða fjárhagslega vörn þú gætir farið í ef sóknin væri betri hjá þér. Sömuleiðis hefur góð og kraft mikil sókn ekkert uppá sig ef vörnin er lítil sem engin.
Vörn í fjármálum
Mér finnst nauðsynlegt að lesa bækur eftir milljóna- og milljarðamæringa. Í stað þess að öfundast út í þetta fólk þá hef ég ákveðið að læra eitthvað af þeim. Þó ég fari mögulega aldrei nema brot af þeirri leið sem milljarðamæringur hefur farið, þá finnst mér betra að fara upp á þeirra plan frekar en að leggja allt á vogaskálarnar til að draga aðra niður. Einnig er ég viss um að geta lært eitthvað gagnlegt af árangursríku fólki sem kemur mér áfram og á betri stað í lífinu.
Eitt af því sem ég hef lært er að breyta fjárhagslegum venjum. Ég er með þá venju að leggja alltaf 10% af allri innkomu á sparnaðar reikning. Hvort sem þú ert með eina innkomu eða margar, þá skaltu taka 10% og setja til hliðar. Lykillinn er að gera þetta um leið og upphæðin kemur inn, en ekki eftir að þú hefur borgað alla reikninga. Sömuleiðis þá tek ég líka 10-20% af upphæðinni ef einhver skyndilegur peningur kemur inn. Þegar skatturinn endurgreiðir mér peningana mína, þá eru þeir settir inná sparnaðar reikning. Ég leyfi mér ekki að eyða honum, hvorki í hugsun né verki.
- Úborgun er 160.000 kr. – þá leggur þú 16.000 kr inn á sparnaðar reikning.
- Úborgun er 323.000 kr. – þá leggur þú 32.300 kr. inn á sparnaðar reikning.
- Úborgun er 610.000 kr. – þá leggur þú 61.000 kr. inn á sparnaðar reikning.
Það skiptir ekki máli hver upphæðin er. Venjan er það sem skiptir máli – að taka 10% og leggja til hliðar.
“Success is simple. Learn and follow the principles of financial fitness. The hardest part for most people is simply getting started.” – Financial Fitness, kafli 5.
Þessi venja á bæði við um einstaklinga, heimili og fyrirtæki. Til að skilja þetta betur mæli ég með kafla 5 í bókinni Financial Fitness eftir Chris Brady og Orrin Woodward. Ég virkilega skildi hversu mikilvæg þessi venja er eftir að hafa lesið þennan kafla. Ég þarf að lesa hann nokkuð reglulega til að upppfæra hugarfarið og venjurnar hjá mér. Ég gleymi – þú gleymir, og þess vegna þurfum við að lesa sömu hlutina aftur og aftur.
Af hverju ertu að gera þetta?
Ég hef mínar ástæður fyrir því að leggja 10% af tekjunum til hliðar og byggja þannig upp sjóð. Þetta veitir mér öryggi; maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Bíllinn bilar, tölvan hrynur, vatnsleki í húsinu eða jarðaför hjá nákomnum ættingja hinu megin á landinu. Og búmm – þú veist aldrei hvenær þér er sagt upp í vinnunni eða hvenær heilsan gefur sig.
Á sama tíma veitir þetta mér frelsi til þess að geta leyft mér fjárfesta. Hvort sem það er í hlutum, viðskiptatækifærum eða hverju því sem ég hef áhuga á. Þetta er hægt að gera án þess að taka lán fyrir fjárfestingum.
Eins og ég hef áður talað um, þá finnst mér lykilatriði að klára ekki sparnaðinn sem maður hefur byggt upp.
„Ég get ekki lagt til hliðar, því það er ekkert afgangs“.

Já okay, ég hef verið á þessum stað sjálf og það er ekki góður staður – ég er fyrst til að viðurkenna það. En, ef þú ert ekki með neitt plan og tekur fjármálin og hugarfarið þitt í ekki gegn þá breytist staðan þín ekkert! Já ég sagði það, ekkert!
Í hvað ertu að eyða? Já, það er ágætt að spurja sig nokkuð reglulega að því. Í hvað eru peningarnir raunverulega að fara? Ég get nánast fullyrt að margir sem kvarta undan peningaleysi eru að eyða miklum peningum í óþarfa.
“Ef þú kaupir hluti sem þú þarft ekki, þá þarftu fljótlega að selja hluti sem þú þarft” – Warren Buffett.
Nokkrar spurningar:
- Eldar þú oftast heima eða kaupir þú mat á veitingahúsum/skyndibitastöðum?
- Kaupir þú nýtt krem, shampoo eða snyrtivörur áður en þú klárar það sem þú átt fyrir?
- Lestu yfir strimilinn úr matvörubúðinni?
- Drekkur þú vatn?
Bara með því að drekka vatn í stað þess að drekka gos, er hægt að spara ótrúlegan pening á ári. Hugsaðu út fyrir boxið. Gagnrýndu sjálfan þig og hvernig þú eyðir peningunum þínum – taktu ábyrgð!
Sókn í fjármálum
Sókn felur í sér að auka tekjur og fjölga tekjulindum. Margir eru fastir í hjólfari sem er aðalvinnan og eiga erfitt með að hugsa út fyrir rammann þegar kemur að sóknartækifærum.
Tækifærin eru mörg og misjöfn. Hægt er að fara í aukavinnu eða vinna yfirvinnu tíma á núverandi vinnustað ef það er í boði. Vænlegur kostur er að koma sér upp tekjulind (helst mörgum) sem tekur ekki mikinn tíma en skilar þér tekjum.
Auka tekjulind getur verið svo margt. Hægt er að leigja eignir, tæki eða aðstöðu. Selja eitthvað og nýta sér krafta internetsins á margvíslegan hátt. Selja hæfileika sína, handverk, hugvit, skrifa bók, semja tónlist. Ef þú hefur ekki uppgötvað hæfileikana þína, þá er sniðugt að starfa í tilbúnu kerfi eins og mörg fyrirtæki í beinni sölu bjóða uppá. Einnig má nefna leynd tækifæri sem felast í ferðaþjónustu sem er mikið í tísku núna. Bæði er hægt að bjóða uppá gistiaðstöðu og líka vera með afþreyingu fyrir ferðamenn. Ég er hér að telja þessa hluti upp til að gefa þér hugmyndir – þú veist best hvað hentar fyrir þig, byrjaðu að hugsa út fyrir boxið.
Margt smátt gerir eitt stórt
Þetta er ofnotaður frasi, en góður. Ekki vanmeta það að vinna auka klukkutíma einhversstaðar, hvort sem það er tímabundið eða til lengri tíma. Allt skilar þetta sér og ég hef ekki ennþá hitt manneskju sem ekki vantar auka tekjur. Auðvitað erum við ekki tilbúin til að gera mikið fyrir lítið en þetta skiptir allt máli fyrir fjárhagsstöðuna.
Auka tekjur þurfa ekki alltaf að skila stórum upphæðum, en hér má sjá nokkur dæmi þess hvernig margt smátt getur gert eitt stórt.
- Auka 20.000 kr. á mánuði er 240.000 kr. á ári.
- Auka 50.000 kr. á mánuði er 600.000 kr. á ári.
- Auka 80.000 kr. á mánuði er 960.000 kr. á ári.
“Þetta er svo lítið að það borgar sig ekki að standa í þessu” hef ég heyrt suma segja. Ég veit ekki með þig, en ég gæti alveg nýtt mér auka 240-960 þúsund krónur á ári. Hvort sem það er til að stækka sparnaðinn minn eða fjárfesta í einhverju sem mig vantar.
Sóknargír
Setjum hugarfarið í sóknargír og finnum okkur einhverjar auka tekjulindir. Hvort sem þær virka til lengri eða styttri tíma. Við þurfum ekki að hugsa allt sem ævistarf. Ævistarf er úrelt hugtak, í dag þekkist það varla lengur að fólk vinni meira en 10 ár á hverjum vinnustað – við eigum að gera margt yfir ævina og gera allskonar.
Sókn felur einnig í sér öryggi. Ef ég missi til dæmis vinnuna þá er gott að vera með auka innkomu annars staðar. Ef heilsan fer eða einhver áföll koma til sögunnar þá er gott að vera búin að byggja upp tekjulindir, sem gefa af sér tekjur fyrir lítinn tíma.
Höfum eitt á hreinu, það er enginn til í að borga þér fyrir afsakanir.
Spilum bæði vörn og sókn.
-Elín Kára-